Barna- og ungbarnaskoðanir?

Spurning:

Sæl. Ég er 25 ára kona og á 21/2 árs gamlan son. Eftir fæðingu hans fór ég fljótlega að finna fyrir miklu fæðingarþunglyndi og veröld mín fór á hvolf. Ég er fyrst núna að ná einhverjum bata eftir meðferð á sjúkrastofnunum. Eins mikið og ég vildi vera dugleg og standa mig vel og gera allt rétt fór sumt á annan veg og þar með talið er ungbarnaskoðun sonar míns sem ég átti í erfiðleikum með að sinna sökum þunglyndis og ótta við umhverfið. Hann hefur ekki fengið allar bólusetningar sem hann hefur átt að fá og satt best að segja er ég ekki alveg viss hvaða skoðanir og bólusetningar hann á eftir að fá og mér finnst mjög sárt að hann gæti hugsanlega verið í einhverskonar sjúkdómahættu sökum þess að ég fór ekki með hann sem skyldi.
Mig langar að vita hvort hægt sé að finna það út með blóðprufu, eða annarskonar rannsókn, hvaða sprautur hann vantar?  Eins langar mig að vita hvaða skoðun hann á að fara næst í því það er næsta víst að við mætum! Af ákveðnum ástæðum er ekki hægt að treysta fullkomlega á bólusetningarskírteinið hans frekar en á minni móður hans. Mig langar einnig að taka það fram að ég lagði mikla áherslu á það við ljósmóður mína þegar ég gekk með son minn að ég ætti sögu um þunglyndi og hefði áhyggjur af lífinu eftir fæðingu. Það var ekki fylgst með mér með neinum hætti eftir fæðingu og guð má vita hvað hefði orðið um okkur hefði ég ekki átt góða að. Eins var greinilega ekki fylgst með því hvort við, yfir höfuð, mættum í ungbarnaskoðun eða ekki, sem mér finnst full ástæða til hjá 22ja ára, nýbakaðri móður með áralanga sögu um þunglyndi.
Að lokum vil ég þakka fyrir dásamlega síðu og þakka því góða fólki sem hér er, sem hægt er að leita til með hugrenningar sínar.
Kveðja, áhyggjufull móðir.

Svar:

Sæl og takk fyrir að senda okkur fyrispurn.

Leiðinlegt að heyra hvernig þér hefur liðið og vonandi líður þér betur.

Skv. upplýsingum frá rannsóknastofu í veirufræði er hægt að finna út með blóðprufum hvort barnið hafi verið bólusett fyrir rauðum hundum, mislingum og hettusótt, og er það gert með því að mæla mótefni fyrir veirunni í blóðinu. Hinsvegar er ekki  hægt að mæla mótefni fyrir barnaveiki, kíkhósta og heilahimnubólgu.

Í ungbarnaverndinni á heilsuverndarstöðinni þar sem þú býrð er haldin heilsuverndarskrá fyrir barnið þitt þar sem  niðurstöður mælinga og allar bólusetningar sem barnið þitt fær eru færðar inn. Næsta skoðun ætti í raun ekki að vera fyrr en um 31/2 árs aldur en ef þú telur að vanti upp á bólusetningarnar þá ráðlegg ég þér að panta tíma hjá hjúkrunarfræðingi eða lækni í ungbarnavernd og útskýra fyrir þeim aðstæður þínar. Þá yrði farið yfir hvaða bólusetningar hann hefur fengið og ef þörf er á, þá gerð áætlun til að hann fái það sem upp á vantar.

Ég vona að þessi svör koma að gagni og gangi þér vel.

Kveðja,

Halldóra Karlsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir