Beinþynning/lyfjameðferð

Spurning:

Sæ1l.

Er æskilegra fyrir tæplega fimmtuga konu að taka hormóna estrogen samsíða uppáskrifuðu Didronate (dinatrii etidronas 200 mg) heldur en að taka það eitt og sér?

Staða/saga:
Sem barn fékk ég beinkröm út frá mikill pensíllíngjöf vegna spítalabólu sem gekk á fæðingardeildinni. Sem hafði varanleg áhrif á kalkmyndun í tönnum en beinagrindin styrktist með tímanum/íþróttum & kalktöku.

Ég lamast í slysi þegar ég var unglingur og hef verið í hjólastól síðan. Fyrir tveimur árum var ég með mikla verki í fæti sem eftir myndatöku sýndu beinþynningu. Það voru engar ráðstafanir gerðar fyrr en núna í vikunni með ákvörðun um inntöku á Didronate.

Þar sem ég hef engin einkenni tíðarhvarfa taldi heimilislæknirinn minn ekki þörf á hormónum. En eftir að lesa mig til um beinstyrkingarlyf finnst mér á þeim upplýsingum að það sé „algengt” að taka estrogen til forvarnar frekari hrörnunar.

Er betra(forvörn) að taka estrogen eður ei?

Með fyrirfram þökk og kveðju.

Svar:

Sæl.

Ætla má að beinþéttni þín sé ekki góð eftir að hafa setið í hjólastól í nærri 30 ár. Öllum þeim sem eru í þinni stöðu er nauðsynlegt að tryggja sér bæði kalk (1000-1200 mg/dag) og D-vítamín (600-800 einingar/dag), hvort sem það er gert með góðum neysluvenjum eða í töfluformi. Þá er mikilvægt að stunda hreyfiæfingar og þá í mörgum tilfellum með aðstoð sérþjálfaðra sjúkraþjálfara, því vöðvatog í bein og vöðvafestur koma ekki eingöngu í veg fyrir kreppur, heldur hindra að einhverju leiti beintapið sem fylgir kyrrsetunni.

Röntgenmyndataka með tilliti til beinþéttni er almennt talin vera óáreiðanleg, en ætla má að 30-40% beintap hafi orðið er röntgenmyndir gefa grun um beinþynningu. Því er talið að einstaklingur í þinni stöðu ætti að nýta sér það að fara í beinþéttnimælingu. Það er unnt að framkvæma með svokölluðum hælmæli sem staðsettur er hjá Lyfju og á Landspítala við Hringbraut. Hælmælar eru fyrst og fremst góðir til þess að staðfesta að viðkomanadi hafi góða beinþéttni, því ættu einstaklingar með grun um beinþynningu að nýta sér fullkomnari beinþéttnimæla sem staðsettir eru á Landspítala í Fossvogi (LSH) og við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA), en þeir mæla beinþéttnina í hrygg og mjöðm með mikillri nákvæmni. Ég vil því eindregið ráðleggja þér að fá tilvísun í annan hvorn beinþéttnimælinn við LSH eða FSA. Þar eru einnig gefin meðferðarráð til viðkomandi tilvísunarlæknis.

Lyf úr lyfjaflokki bisfosfónata (Didronateâ, Fosamaxâ, Optinateâ) eru mjög virk lyf til varnar frekari beintapi, svo og til þess að bæta beinhag þeirra sem þegar eru komnir með beinþynningu. Þá hafa þessi lyf sannað gildi sitt í því að koma í veg fyrir beinbrot í hrygg og mjöðm. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa beinþéttnimælingar við hendina til þess að ákvarða um frekari meðferð, en einnig til þess að fylgja eftir væntanlegum meðferðarárangri með aukinn beinþéttni. Til dæmis í þínu tilfelli væri æskilegt að hafa beinþéttnimælingu nú í upphafi nýrrar meðferðar (Didronate) og endurtaka mælinguna eftir 1-2 ár. Þá fyrst, er unnt að svara spurningu þinni hvort þú þurfir einnig á að halda hormónauppbótarmeðferð vegna beinþynningar. Þú hefur tíma með þér, þar sem þú ert enn ekki komin á tíðahvörf.

Með kærri kveðju.

Björn Guðbjörnsson, dósent
Formaður Beinverndar