Belgina vantaði á fylgjuna – af hverju?

Spurning:

Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir nokkrum mánuðum gerðist það að belgina vantaði á fylgjuna. Náð var í lækni sem sagði að hann myndi skrapa legið og það tæki u.þ.b. 15 mín. Því næst var mér rúllað inn á skurðstofu þar sem her manns var samankominn og ég svæfð. Ég vaknaði þremur tímum seinna og fannst ég hafa verið svikin um fyrstu dýrmætu klukkutímana með dóttur minni.

Ég hafði aldrei lesið eða heyrt neitt um þetta þrátt fyrir að hafa sótt námskeið og lesið fjöldann allan af bókum á meðgöngunni og enginn sagði mér neitt á sjúkrahúsinu og ég hafði ekki rænu á því að spyrja. Hvers vegna vantaði belgina og er þetta eitthvað sem ég get búist við að endurtaki sig? Hvaða fólk var inni á skurðstofu? Af hverju var ég sofandi í þrjá tíma? Hefði ekki mátt bíða með aðgerðina þangað til barnið hefði tekið brjóstið? Hvað hefði gerst ef legið hefði ekki verið skrapað? Hvað hefði verið gert í heimafæðingu? Hvers vegna fékk ég ekkert að drekka í marga klukkutíma þrátt fyrir mikinn þorsta? (ég var svo þyrst að ég gat ekki sofið og drippið var alltaf að stíflast).

Með fyrirfram þökk fyrir svarið.

Svar:

Sæl.

Það er alltaf leiðinlegt að lenda í svona hremmingum, en þetta kemur fyrir af og til. Stundum skilar fylgjan sér ekki eða bara hluti hennar og stundum rifna belgirnir svo hluti þeirra verður eftir uppi í leginu. Það virðist hafa gerst hjá þér. Ástæða þess að rokið var með þig inn á skurðstofu hefur líklegast verið ríkuleg blæðing í kjölfar fæðingarinnar. Ef fylgjuleifar eða belgir verða eftir inni í leginu eftir fæðinguna nær það ekki að dragast nægilega vel saman til að loka æðunum í fylgjubeðnum (sárinu eftir fylgjuna) og þar sem blóðstreymið um fylgjubeðinn er um 5-800 ml. á mínútu gefur auga leið að ekki líður langur tími þar til hættuástand skapast fyrir móðurina og henni getur auðveldlega blætt út. Þess vegna verða allir svona stressaðir þegar eitthvað verður eftir í leginu og konunni blæðir. Þess vegna var heldur ekki hægt að bíða þar til barnið hafði tekið brjóst.

Ef svona ástand skapast í heimafæðingu lætur ljósmóðirin strax hringja á sjúkrabíl og skurðstofu næsta sjúkrahúss, setur upp vökva í æð og gefur lyf til að fá samdrátt í legið. Ef blæðir ríkulega getur ljósmóðirin þurft að sækja fylgju-/belgjarestarnar með hendinni þótt konan sé ódeyfð. Sem betur fer gerist það mjög sjaldan. Varðandi alla sem voru á skurðstofunni þá finnst mér líklegt að þar hafi verið saman komin svæfingalæknir og svæfingahjúkrunarfræðingur, tveir til þrír skurðhjúkrunarfræðingar, læknir og aðstoðarlæknir og e.t.v. ljósmóðir. Oftast eru svona útskrapanir úr legi stuttar aðgerðir og ekki get ég með góðu móti svarað því hvers vegna þú svafst svona lengi – þó gæti það orsakast af litlu þoli fyrir svæfingalyfjum því mjög er misjafnt hversu mikið fólk þarf af lyfjum til að þau virki. Ástæða þess að ekki er gefið neitt að drekka í dálítinn tíma eftir svæfingu er að meltingin stöðvast um tíma og ef eitthvað kemur niður í maga veldur það ógleði og uppköstum. E.t.v. hefðir þú þolað að fá að drekka fyrr og drippið mátt renna hraðar.

Ég tel að til þess að fá botn í þetta allt saman og ná að verða sáttari við þessa upplifun væri gott fyrir þig að skoða skýrsluna þína með ljósmóður eða lækni sem getur útskýrt hvað gerðist út frá því sem skráð er í skýrsluna. Þú getur líka talað við „Ljáðu mér eyra hópinn“ á Landspítalanum sem aðstoðar konur sem lent hafa í erfiðri fæðingarreynslu. Þú finnur upplýsingar um þann hóp á heimasíðu Landspítalans og á móttökudeild kvennadeildarinnar.

Ég vona að þetta svar hafi í einhverju hjálpað þér og að þú jafnir þig vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir