Besta ráðið við of bráðu sáðláti?

Spurninng:
Hvað er besta ráðið við of bráðu sáðláti?
Einn ,,snöggur”.

Svar:

 

Ég get vel skilið þá ósk þína að geta haft samfarir lengur en er raunin hjá þér. Samfarir eru í hugum flestra innileg, gefandi og náin athöfn. En ég vona að þú viljir læra að hafa betri stjórn á hvenær sáðlátið (og fullnægingin) verður þín vegna en ekki vegna þess að þú vilt geta ,,veitt henni fullnægingu”. En ég ætla ekki nánar út í þá sálma. Snúum okkur að efninu. Hvað er þá besta ráðið við of bráðu sáðláti? Langflestir ef ekki allir karlmenn sem finnst þeir ,,fá það of fljótt” halda að þeir séu ofurnæmir fyrir kynferðislegri örvun og að það sé ein helsta orsökin fyrir bráðasáðlátinu. En það er því miður ekki rétt. Það mætti frekar segja að ,,skammhlaup” verði í kynsvörun karlmannsins og að sterkar tilfinningar á borð við frammistöðukvíða eigi vissan þátt í að koma ,,skammhlaupinu” (bráðasáðlátinu) af stað. En af því að þeir trúa því að þeir séu svona næmir fyrir kynferðislegri örvun taka margir til þess bragðs að draga úr örvuninni t.d. með því að forðast snertingu við rekkjunaut sinn, dreifa huganum, setja marga smokka á liminn, setja deyfandi krem á liminn og þar fram eftir götunum. Sumir fróa sér í laumi á undan því þeir vita að það tekur lengri tíma að fá það í næsta sinn eða reyna að deyfa sig með því að innbyrða áfengi. En ekkert af áðurnefndum húsráðum dugar og kennir körlunum ekkert um kynferðisleg viðbrögð líkamans eða hefur eitthvað með kynferðislega ánægju að gera.

Lykillinn er lausn vandans er að gera hið gagnstæða: læra að beina athyglinni að kynfærunum – í stað þess að láta sem þau séu ekki til – og fara í æ ríkara mæli að reyna að njóta kynmakanna. Þetta er t.d. gert með því að beinlínis ,,æfa” sig í æ meiri og kröftugri kynferðislegri snertingu m.a. í þeim tilgangi að hækka svonefndan ,,fullnægingarþröskuld” líkamans. Margt fleira spilar inn í við úrlausn þessa vanda svo sem einstaklingsbundnir þættir og hvernig kynferðislegu samspili parsins er háttað. 

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur – kynlífsráðgjafi