Þjálfari minn áreitir mig, hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Ég veit eiginlega ekki alveg hvar ég á að byrja, ég eiginlega veit ekki einu sinni hvort þetta myndi flokkast undir vandamál heldur. En þannig er að ég er að æfa íþrótt og þjálfarinn minn er búin að vera með einhverjar játningar um að hann vilji sofa hjá mér og elski mig og er búinn að vera að reyna við mig með faðmlögum og svoleiðis. Ég vil þetta ekki og finnst þetta ekki þægilegt.

Stundum erum við bara tvö að æfa og mér finnst það mjög óþægilegt því ég veit ekki hvað hann tekur upp á. Ég hef sagt við hann að ég vilji þetta ekki en samt ekki verið neitt reið því ég þori því ekki og vil ekki að það verði eitthvað vandamál úr þessu. Einn vinur minn veit þetta og hann er líka að æfa hjá þessum manni og vill ekkert segja skiljanlega.

Hvað get ég gert ég er að æfa 2x á dag með honum yfirleitt og get ekki bara hætt allt í einu enda langar mig að standa mig, en einnig að líða vel þegar ég er að æfa.

Með fyrirfram þakklæti.

Svar:

Sæl.

Vissulega tel ég að um vandamál sé að ræða. Það á ekki að líðast að börn og unglingar geti ekki stundað áhugamál sín, hvort heldur það er í íþróttum eða öðru félagslífi, vegna áleitni frá þjálfaranum eða stjórnanda. Því miður er þetta alltof algengt og hafa hlotist af slíkri áleitni varanlegir skaðar fyrir börnin eða unglingana. Til þess að geta stundað æfingar eða félagslíf þurfa börnin að geta treyst þeim sem leiða starfið. Við þessar aðstæður er það ekki hægt. Svona áleitni brýtur börnin smám saman niður, jafnvel þó hún gangi ekki lengra en þú lýsir. Þjálfarar og unglingaleiðtogar, sem þú ert að lýsa eru auðvitað veikir og það ætti ekki að líðast að þeir starfi sem slíkir leiðtogar, sama hversu góðir þjálfarar þeir annars eru. Staðreyndin er sú að þessi áleitni þjálfara þíns vinnur gegn árangri þínum á íþróttasviðinu t.d. með því að mynda hjá þér kvíða gangvart því að mæta á æfingar, kvíða gagnvart því hvort þú sleppir við áleitni í dag, kvíða gagnvart því hvort nú verði af einhverri áleitni, þegar þið þurfið að vera í nánum tengslum eða jafnvel líkamlegum, vegna æfinganna o.s.frv. Allt þetta heftir þroska þinn í íþróttinni og þú værir því betur komin með annan þjálfara, jafnvel þó hann sé ekki álitinn eins góður.

Þú segist ekki vilja gera vandamál úr þessu, en það átt þú einmitt að gera. Ef þú gerir það ekki brotnar þú niður og sjálfstraust þitt minnkar og af skrifum þínum að dæma, er slíkt niðurbrot á sjálfstrausti þegar byrjað hjá þér. Ef sjálfstraust þitt minnkar getur þú aldrei orðið góð í íþrótt þinni. Þú segir að þig langi til að stunda áfram þessa íþrótt og standa þig og þú segir líka að þig langi til að líða vel við æfingar. Af því sem ég hef nú þegar sagt, gengur ekkert af þessu upp, ef þú gerir þetta ekki að vandamáli.

Þú átt að fara til þjálfarans af fyrra bragði, ekki þegar hann er að leita á þig, og segja við hann að þú viljir gjarnan halda áfram að æfa hjá honum, en að þú getir ekki liðið þessa áreitni hans framar og henni verði að ljúka. Þú þarft einnig að segja við hann að ef henni ljúki ekki munir þú segja öðrum frá þessu, bæði foreldrum þínum og yfirmönnum hans. Hann veit að þessi framkoma hans verður ekki liðin og því er líklegt að hann hætti þessu ef þú ert ákveðin við hann. Þú þarft reyndar líka að segja honum að þú ætlist til þess að hann þjálfi þig áfram á sama hátt og hingað til þrátt fyrir þennan ágreining ykkar til þess að koma í veg fyrir að hann fari að koma fram við þig á óréttlátan hátt eftir þetta. Ef þú ert mjög ákveðin mun hann bera virðingu fyrir þessari kröfu þinni og ekki láta það koma niður á þér. Ef þú ert hins vegar mjög óákveðin mun hann annað hvort ekki taka mark á þér eða hugsanlega láta þetta koma niður á þér síðar. Svo það er mjög mikilvægt að þú æfir vel það sem þú ætlar að segja og sýnir með framkomu þinni að þú meinir þetta.

Ég veit að þetta er mjög erfitt mál og því miður eru líkur til þess að þetta fari ekki vel. Hins vegar verður þú að muna að ekkert af þessu er þér að kenna. Það er hann, sem hefur skapað þetta ástand en ekki þú. Það er hann sem hagar sér illa gagnvart þér. Það er hann sem misbíður trausti þínu og það er hann, sem reynist þér lélegur þjálfari þrátt fyrir þá tækni, sem hann er að kenna þér. Þú ert aðeins að stöðva þessa hegðun hans og það er þinn réttur, þó svo að hann, vegna veikleika síns og vanþroska, reyni síðar að kenna þér um að samskipti ykkar verði stirð eftir að þú talar við hann. Ef hann hefur einhvern þroska til að bera, mun hann taka vel í það að þú r
æðir þetta við hann, annars má segja að þú sért betur stödd án hans sem þjálfara og ættir að leita leiða til að skipta um þjálfara.

Eins og ég sagði hafa viðbrögð þín hingað til einkennst af of litlu sjálfstrausti og það má ekki ganga áfram. Ég vona því að þú stöðvir þessa áreitni hans og ræðir þetta við hann. Ég hef gengið út frá því að þú sért stálpaður unglingur og að líklega sé aldursmunur á þér og þjálfaranum ekki meiri en ca. 10-15 ár. Ef þú ert mikið yngri en 16 ára skaltu fara beint með þetta mál í foreldra þína, því þá ert þú of ung til að ráða við þetta sjálf.

Gangi þér vel,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur.