Þjálfunarpúls eftir hjartaaðgerð

Spurning:

Ég fór í framhjáveituaðgerð á hjarta fyrir tæpum 3 árum. Eftir allavega veikindi er ég farin að styrkja mig aftur og langar að vita hversu hár púlsinn má verða þegar ég er t.d. að hlaupa eða á svona tæki sem virkar eins og maður sé á skíðagöngu.

Kveðja.

Svar:

Fyrst þú hefur sögu um hjartasjúkdóm og einnig ýmis önnur veikindi þá eiga almennar ráðleggingar um þjálfunarpúls ekki við, heldur ættir þú að fara í þolpróf hjá lækni og byggja þjálfunaráætlunina á því. Fyrir hinn almenna borgara er yfirleitt stuðst við regluna 220-aldur til að reikna út hámarkspúls og síðan tekinn 50-85% af þeirri tölu til að fá út þjálfunarpúls eftir því hvert markmiðið með þjálfuninni er, þ.e fitubrennsla eða þolþjálfun. Það eru til handhægar töflur á öllum líkamsræktarstöðvum þar sem fólk getur lesið út þjálfunarpúlsinn sinn. En ég ítreka það að fyrir alla sem hafa sögu um hjartasjúkdóma, eru töluvert of þungir eða hafa ekki hreyft sig í lengri tíma er nauðsynlegt að fara í læknisskoðun áður en þjálfun er hafin. Allur er varinn góður.

Högni Friðriksson, sjúkraþjálfari