Góðan dag Ég er 47 ára hef reglulegar blæðingar og eftir 2 vikur frá síðustu blæðingum er ég aftur byrjuð og er búin að vera í viku,er aldrei svona lengi. En er þetta eðlilegt eða er svokallað breytingarskeið að herja á mig?
Ein þreytt
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Já það er hugsanlegt að þú sért að byrja á breytingaskeiðinu. Einkennin eru rosalega misjöfn eftir konum. Sumar konur upplifa miklar breytingar bæði andlega og líkamlega, aðrar eingöngu líkamlega og svo enn aðrar eingöngu andlega.
Hitakóf og kaldur sviti, oft til skiptis, óreglulegur tíðahringur, stundum stutt á milli blæðinga og stundum langt á milli eru einkenni breytingaskeiðsins. Oft eru blæðingarnar svona í einhvern tíma áður en þær hætta alveg. Misjafnt er hversu hratt eða hægt þetta tímabil gengur yfir hjá konum, allt frá fáum mánuðum upp í nokkur ár. Það fer allt eftir því hvernig hver og ein kona og hennar líkami nær að aðlagast breytingunum.
Gangi þér vel,
Með kveðju,
Bylgja Dís Birkisdóttir
Hjúkrunarfræðingur