Blæðing á fyrsta hluta meðgöngu.

Spurning:
Kæra Dagný, Ég er 29 ára kona og hef smá áhyggjur. Ég fór í snemmsónar í gær  og fékk "staðfestingu" á þungun sú sem skoðaði mig taldi að ég væri komin með 4 og hálfa viku. Í nótt fór ég svo á klósettið og þá kom blóð frekar ferskt og eins og það væri blandað vatni og það hefur svo seitlað smá í allann dag. Ég á einn strák fyrir og þegar ég gekk með hann blæddi ekkert og ég hef heldur aldrei misst fóstur. Ég á að mæta aftur í sónar eftir 2 vikur. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af eða getur þetta verið út af ertingu frá leggangasónarnum.

Á beiðnini sem ég kom með var skrifað.( Væg ómun byrjandi sekkur) Hvað þýðir það?? Vonandi getur þú svarað mér sem allra fyrst. Ég veit að það getur blætt á meðgöngu en ég veit ekki hvað er eðlilegt og hvað ekki. Stundum finnst mér eins og einkennin fari minnkandi. Þetta er fer svolítið á sálina á mér.

Vonandi getur þú svarað fljótt. Kærar þakkir ein mjög áhyggjufull.

Svar:
Það er líklegt að ef blæðingin er fersk og vatnskennd geti verið um fósturlát að ræða. Láttu lækni líta á þig ef þetta hættir ekki strax. Á sónarblaðinu hefur væntanlega staðið "vag. ómun – byrjandi sekkur" sem þýðir að um leggangaómskoðun var að ræða og það sást byrjandi fóstursekkur sem er vatnsblaðran utan um fóstrið.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir