Spurning:
Kæri doktor! Mig langar svo að spyrjast fyrir hjá ykkur. Þannig er mál að vexti að ég eignaðist litla stúlku fyrir þremur og hálfum mánuði síðan. Ég er með hana á brjósti og mjólka vel, okkur heilsast semsagt báðum alveg rosalega vel. Eftir að ég hætti í úthreinsuninni sem stóð í u.þ.b. tvær vikur, byrjaði ég að fara reglulega á blæðingar. Þær hafa verið reglulegar síðan þá, fyrst kemur svona dökkbrún útferð sem er mjög slímug en breytist smám saman í blóð. Þetta er annað barnið mitt. Fyrra barnið mitt sem ég átti fyrir 8 árum síðan var líka á brjósti eins og þetta barn og þá var þetta ekki svona. Ég fór á því tímabili semsagt ekkert á túr meðan brjóstargjafatímabilið stóð yfir. Það væri fínt að fá svar við þessu.
Með fyrirfram þökk, kveðja
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrispurnina.
Til hamingju með dótturina. Hvenær blæðingar hefjast eftir barnsburð er mismunandi milli kvenna og er það mismunandi milli kvenna sem hafa barn á brjósti og einnig milli kvenna sem ekki eru með barn á brjósti. Rannsóknir benda til að blæðingar hefjast venjulega einum til þrem mánuðum eftir barnsburð hjá konum sem hafa barn sitt ekki á brjósti og oftast nær líður lengri tími ef kona er með barn á brjósti. En þetta er allt saman einstaklingsbundið og í þínu tilviki getur þetta vel verið eðlilegt, ef þú hinsvegar hefur áhyggjur af þessu þá skaltu endilega tala við lækninn þinn og fá fullvissu um að allt sé í lagi.
Bestu kveðjur og gangi ykkur vel
Halldóra Karlsdóttir, Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur