Blæðingar eftir útskröpun

Spurning:

Halló.

Ég er 28 ára kona og ég er í svolitlum vandræðum. Þannig er mál með vöxtum að í lok janúar missti ég fóstur og fór í útskröpun og kviðspeglun.

Læknirinn sagði mér að aðgerðin hefði tekist vel og allt liti út fyrir að vera í lagi. Núna hátt í 3 mánuðum síðar er ég enn á blæðingum og er orðin allgjört flak. Mig svimar, ég sé óskýrt, mér er flökurt, ég er með höfuðverk og ég er með útbrot út um allan líkamann. Ég er búin að fara í blóðprufu, en læknirinn minn sem gerði útsköfunina er ekki búinn að hringja í mig þrátt fyrir að ég hafi ítrekað reynt að ná í hann. Ég er búin að reyna fá tíma hjá læknum í Reykjavík en þar eru svörin annaðhvort að viðkomandi sé hættur að taka við nýjum sjúklingum eða að það sé margra vikna bið.

Vinsamlegast hjálpið mér ég er orðin dauðþreytt. Ég er búin að reyna að fá stopp töflur hjá vaktlækni, það virkaði á meðan ég tók þær en þegar ég sagði lækni sem gerði aðgerðina hvað töflurnar hétu þá sagði hann að þær væru:„ hreinasta rottueitur og ég gæti verið þakklát fyrir að vera á lífi. ” Og þetta var það síðasta sem hann sagði við mig og ég hef ekki heyrt frá honum í 3 vikur. Er einhver sem getur hjálpað mér þarna. Ég yrði virkilega þakklát.

Takk.

Svar:

Sæl.

Þú ættir annað tveggja að ná sambandi við aðgerðarlækninn eða í heimilislækni sem gæti rannsakað þetta eða þá haft samband við þann lækni sem um ræður. Annar valmöguleiki er að hafa samband við bráðamóttöku sjúkrahúsanna. Þetta er þannig lýsing að ekki er hægt að ráðleggja þér nema að undangenginni skoðun.

Gangi þér vel.
Arnar Hauksson dr. Med.