Blæðingar í augnbotnum?

Spurning:
Mig langar að spyrja um blæðingar í augnbotum hjá aðila, sem er kominn yfir sjötugt. Hann bíður eftir að fara í leiseraðgerð til að stöðva blæðingarnar. Einnig er búið að skipta um augnsteina hjá honum. Það sem hann langar að vita er hvort sjónin gæti skýrst aftur eftir að búið er að stöðva blæðinguna, hvort þetta sé svona eins og ef maður fær marblett einhverstaðar sem hverfur svo?

Svar:
Augnbotnablæðingar koma upp í sjúkdómnum ,,aldursbundinni hrörnun í sjónhimnu“, sem er algengasta orsök sjónskerðingar í eldra fólki á Íslandi. Til viðbótar því að vera algeng orsök sjónskerðingar, þá er þetta afar erfiður sjúkdómur að eiga við. Stór hluti rannsókna augnlækna um allan heim miðar að því að finna svör við þessum sjúkdómi, hvað veldur því að hann komi upp og ekki síst hvernig er hægt að stöðva hann. Þessi sjúkdómur er oft kallaður ,,kölkun í augnbotnum“ hér á landi. Þarna á sér þó ekki stað nein kölkun, þannig að segja má að þetta sé óheppilegt nafn og ætti að halda sig við hugtakið ,,hrörnun“.  Hrörnunin hefst oft á því sem við köllum ,,þurra hrörnun“. Breytingar verða þá á litþekjunni inni í augnbotninum. Oft er sjónskerðingin lítil, en getur þó farið smátt og smátt versnandi og valdið þó nokkurri sjónskerðingu. Eitt af einkennum hrörnunar í sjónhimnu er að hún á sér stað í miðju sjónsviðinu, þar sem skarpa sjónin býr. Því hættir fólk stundum að geta lesið eða þekkt andlit á fólki en sér allt í kringum hlutina og andlitin og getur því t.d. sinnt athöfnum daglegs lífs, s.s. að útbúa mat o.þ.h. Með öðrum orðum, hliðarsjónsviðið er í lagi þrátt fyrir að skarpa sjónin í miðjunni fari. Þetta er t.d. andstaða þess sem gerist í gláku, en þar fer hliðarsjónsvið fyrst, en síðast skarpa sjónin.

Annað form af hrörnunni, svokölluð vot hrörnun“ getur komið eins og hendi sé veifað. Vota hrörnunin einkennist einmitt af því sem þú nefnir, skyndilegri blæðingu í augnbotni. Þessi blæðing veldur oft mikilli sjónskerðingu á stuttum tíma. Fólk getur líka upplifað það að sjá það sem áður voru beinar línur, t.d. ljósastaur, sýnast nú hlykkjóttar. Þess blæðingar verða undir sjónhimnunni og geta skemmt hana á tiltölulega skömmum tíma. Aðeins 10% þeirra sem hafa kölkun í augnbotnum fá vota hrörnun, en hún veldur oft miklum sjónskaða. Um 10% þeirra sem fá blæðingu í augnbotna geta farið í lasermeðferð á augnbotni. Lasermeðferðin byggir fyrst og fremst að því að eyðileggja þær æðar sem blæðingin kemur frá og hindra þar með útbreiðslu blæðingarinnar. Því miður er það nú svo að það sem blæðingin hrífur með sér skilar hún sjaldan aftur. Því er sjónskerðingin sem orðin er oft komin til að vera, þrátt fyrir lasermeðferð. Lasermeðhöndlunin er hugsuð fyrst og fremst til að hindra frekari sjónskerðingu. Það er þó ekki svo að sjónin geti ekki að einhverju leyti komið aftur í litlum hluta tilfella. Hins vegar verður sjónin sjaldnast eins og áður en blæðingin átti sér stað – því miður. Nýjar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi C og E vítamíns, auk zinks, í þessum hrörnunarsjúkdómi.

Ég vil eindregið hvetja alla þá sem þetta lesa og hafa greinst með þennan sjúkdóm á einhverju stigi að taka eina fjölvítamín á dag með zinki og auk þess C, E og zink. Nauðsynlegt er að taka kopar einnig, þar sem zinkgjöf getur stuðlað að auknum útskilnaði á kopar og jafnvel koparskorti. Vonandi aukast meðferðarmöguleikar á hrörnun í sjónhimnu í framtíðinni. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að viðkomandi verður aldrei alblindur af þessum sjúkdómi og flestir geta lifað eðlilegu lífi þrátt fyrir hann.

Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári.