Blæðingarnar láta á sér standa

Spurning:
Sæl Dagný.

Það eru víst ófáar fyrirspurninrnar sem þú færð þessa dagana, en ég er með eina í viðbót fyrir þig. Þannig er mál með vexti að ég hætti á pillunni minni (Gynera) í lok september, þó ekki vegna neins sérstaks. Rúmum mánuði síðar fór ég að hafa áhyggjur af því blæðingarnar létu á sér standa. Keypti mér þá 2 óléttupróf úti í apóteki og framkvæmdi þau, með viku millibili, en þau reyndust bæði neikvæð. En núna er kominn desember og enn bólar ekkert á blæðingunum. Ég geri mér samt grein fyrir því að þegar maður hættir á pillunni (var búin að vera á henni í rúm 3 ár) þá má búast við því að blæðingarútínan ruglist. Hún hefur þó alltaf verið mjög stabíl hjá mér. Mig langaði þess vegna að spyrja, hvað gæti ég þurft að bíða lengi eftir því að byrja aftur á blæðingum? Og er það kannski óæskilegt hjá mér að hætta á henni ef ég reikna með að byrja á henni aftur, eftir ár eða svo?

Kær kveðja!

Svar:
Það er engin ástæða til að taka sér hlé á pillunni nema maður ætli sér í barneignir. Ekki er óalgengt að blæðingar láti aðeins á sér standa og að fyrstu 1-3 tíðahringirnir ruglist dálítið eftir pillunotkun. En hins vegar er svolítið langt að það líði meira en 10 vikur þar til blæðingar hefjast. Það væri óvitlaust hjá þér að gera þungunarpróf núna og ef það er neikvætt þá ætti þér að vera óhætt að byrja á pillunni aftur.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir