Blæðingarnar láta standa á sér?

Spurning:
Ég hætti á pillunni í nóvember og hef ekki farið á blæðingar eftir það. Ég á eitt barn fyrir (18 mán.) og nú langar mig í annað. Þegar ég hætti á pillunni í fyrra skiptið fór ég strax á blæðingar og varð svo ófrísk mjög fljótlega. Hvenær leita ég til læknis til að koma blæðingum af stað? Og svo önnur spurning, barnið mitt var tekið með keisara og ég er ennþá aum í skurðinum og klæjar í hann og fæ sára stingi. Er það ekki eðlilegt? Takk fyrir

Svar:
Hafir þú ekki haft blæðingar eftir að þú hættir á pillunni er möguleiki að þú sért nú þegar barnshafandi. Sé þungunarpróf neikvætt en blæðingarnar láta á sér standa væri æskilegt að þú talaðir fljótlega við lækni til að rannsaka hverju þetta tíðastopp sætir.

Varðandi skurðinn þá á hann að vera fullgróinn en einstaka manneskjur fá ofurtilfinningu í skurðsár og finna lengur og meira til en eðlilegt getur talist. Sé örið roðalaust og eðlilega útlítandi (hvítt strik án roða og ofholdgunar) ert þú mögulega ein af þeim. Ör eftir keisaraskurð liggja hins vegar á þannig svæði að þar getur myndast felling sem raki liggur í og orsakar sveppasýkingu í og við örið. Sjáir þú roða eða bólgu við örið skaltu láta lækni líta á þig

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir