Blæðingastopp

Spurning:

Kæri Arnar Haukson.

Ég er 25 ára kona og á 7 mánaða gamalt barn með sambýlismanni mínum. Ég hef ekki haft blæðingar eftir að barnið fæddist í apríl. Það eru fjórar vikur síðan ég hætti brjóstagjöfinni. Eftir fæðingu barnsins ákvað ég að láta setja í mig lykkjuna þar sem ég hafði áður verið á p-pillunni í mörg ár. Nú langar okkur að eignast strax annað barn og hafði ég hugsað mér að láta taka úr mér lykkjuna bráðlega. Get ég orðið ólétt þó að blæðingarnar sé ekki byrjaðar? Verður ekki að eiga sér stað egglos til að ég geti orðið þunguð? Verður egglos án þess að ég hafi haft blæðingar? Ef blæðingarnar byrja ekki fljótlega (innan mánaðar) er í lagi að taka start-pilluna til að koma þeim af stað? Ég á nokkrar slíkar pillur sem ég fékk frá heimilislækni mínum þar sem ég hafði ekki fengið blæðingar í tæpt ár eftir að ég hætti á p-pillunni á sínum tíma.

Með von um svar.

Kveðja

Svar:

Kæru hjón.

Svarið við öllum þínum spurningum er já!
Hafir þú hins vegar haft lengri tímabil með blæðingarstoppi áður en þú varðst þunguð gætir þú þurft að ráðfæra þig við lækni ef blæðingar koma ekki aftur sjálfkrafa eftir nokkra mánuði og eða notkun „starttaflna”.

Kveðja,
Arnar Hauksson, kvensjúkdómalæknir