Hvað er heimakoma ?
Góðan dag,
Heimakoma er tegund bráðrar húðsýkingar oftast af völdum streptókokka bakteríum. Orsök hennar mætti rekja til sýkla sem komast í snertingu við ysta lag húðar í gegnum sár eða annarra sýkinga t.d sveppasýkingu. Einkenni byrja yfirleitt sem lítil roðahella sem síðar stækkar dag frá degi. Sýkingin er oftast vel afmörkuð á einu svæði, langoftast á fæti, fótlegg eða í andliti. Húð verður heit viðkomu, rjóð, gljáandi og upphleypt. Þessu fylgir oft sótthiti og almenn vanlíðan.
Mikilvægt er að bregðast skjótt við þessum einkennum með því að leita tafarlaust til læknis sem hefur þá sýklalyfjameðferð. Ef ekki er bugðist við getur það leitt til alvarlegrar blóðsýkingar (e. sepsis).
Gangi þér vel,
Rakel Ösp Óskarsdóttir, hjúkrunarfræðingur