Bleyjur, brjóstsviði og félagsfælni?

Spurning:
Hæ Hæ, ég er í smá vandræðum, ég er ekki ófrísk, eða allavega vona ekki,er með lykkjuna, og byrjaði fyrir nokkru síðan að fá brjóstsviða. Ég hafði aldrei fengið brjóstsviða áður en ég var ófrísk og svo hætti það um leið og ég átti strákinn minn fyrir tæpum 4 árum. Svo allt í einu núna nýlega byrjaði ég að finna fyrir þessu, og það versnar dag frá degi. Núna er ég búin að taka 2 töflur og ég get varla andað. Þetta er svo vont. Hvað er eiginlega í gangi?

Svo er annað mál, Sonur minn hætti með bleyju þegar hann var 2ára. Nú er hann rúmlega 3 1/2 árs og byrjaði allt í einu að pissa undir. Hann er myrkfælinn þannig að það hafa af og til komið slys ef hann nær ekki að vekja mig. En nú sefur hann bara alla nóttina í rúminu sínu og vaknar ekkert til að pissa og það fer bara allt í rúmið. Þegar ég vakti hann í morgun þá svaf hann svo vært og var ekkert að átta sig á að hann hefði pissað undir. Hann var að skipta um deild í Leikskólanum sínum en þetta var samt byrjað fyrir þann tíma. Oft kvartar hann undan því að honum sé illt í typpinu og pungnum. Ég veit ekki hvort eitthvað liggur þar.

Svo, þriðji hluturinn, kærasti minn er með Félagsfælni, er að taka lyf núna og fínt með það, en hvað líður langur tími þar til hann fer að geta gert eitthvað, þ.e.a.s. þar til sjúkdómurinn hættir að angra hann og hefta hann. Getur verið að sonur okkar getur fengið þennan sjúkdóm? Getur verið að það sé nú þegar byrjað? Hann er myrkfælinn, hræddur við hunda og ketti. Það er mjög styrrt allt hjá okkur, það er búinn að líða mjög langur tími þar sem við höfum ekkert verið að rækta sambandið, og ég nokkurn veginn missti allt traust á hann og hætti að virða hann sem persónu í þessum veikindum. Ég fór bara að sætta mig við að hann væri svona og ákvað að halda mínu striki og lifa mínu lífi. Hvernig get ég fengið þetta traust og virðingu fyrir honum aftur. Er þetta samband bara ónýtt. Við erum búin að vera saman í tæp 6ár og áttum frábært samband, við elskum hvort annað mjög mikið en stundum heldur maður bara að við séum svo vön að vera saman að maður hættir kannski að greina á milli, ást og vani.

Kveðja, ein áhyggjufull og vantar svör í lífinu

Takk fyrir frábæra síðu, Doktor.is varð til þess að Félagsfælnin hjá kærasta mínum uppgötvaðist.

Svar:
Þeir þrír liðir, sem þú fjallar um í bréfi þínu benda allir til þess að um of mikla streitu sé að ræða í lífi fjölskyldunnar. Ég er ekki læknir en veit þó að brjóstsviði tengist hækkun á sýrustigi í maganum og það stafar gjarnan af streitu eða álagi, þó það geti vissulega einnig stafað af líkamlegum orsökum.

Þegar börn, sem vanin hafa verið af bleyju, byrja allt í einu að pissa undir veltir maður einnig álagi fyrir sér. Þó er munur á því hvort það gerist eingöngu á næturna eða hvort það gerist að degi til einnig. Þú nefnir reyndar að hann kvarti um sársauk í typpinu og það ber að láta lækni skoða.

Svo nefnir þú erfiðleika í sambandi þínu og mannsins þíns, tengt félagsfælni hjá honum og gefur í skyn að hann sé ekki að vinna líði illa og sé heftur af fælninni.

Allt gæti þetta verið tengt og samtvinnað í einhvers konar heildarvanlíðan og streituástandi á heimilinu. Upplýsingarnar sem þú gefur eru þó of litlar til að hægt sé að slá einhverju föstu um það. Ég ráðlegg þér að leita til læknis vegna brjóstsviðans og fá sjúkdómsgreiningu vegna hans. Eins ráðlegg ég þér að leita til læknis vegna þvagvandamála sonarins, einkum með tilliti til kvartana hans um sársauka í typpi og pung. Þú segir kærasta þinn vera á lyfjum vegna félagsfælni. Er hann jafnframt í einhverri sálfræðimeðferð? Hver setti hann á lyf? Heimilislæknir eða geðlæknir? Og þá hvaða lyf og í hvaða tilgangi? Svör við þessum spurningum geta gefið upplýsingar um hversu langt getur liðið þar til hann fer að fá einhvern bata. Félagsfælni er ekki líffræðilegur sjúkdómur heldur sálræn fælni og erfist því ekki líffræðilega. Erfitt er að segja til um áhrif uppeldis, en þau eru væntanlega einhver, en jafnfram auðvelt að vinna gegn þeim ef það er gert á meðvitaðan og réttan hátt.

Mér sýnist nokkuð ljóst af bréfi þínu að ýmislegt sé að í samskiptunum á heimilinu. Ég ráðlegg þér því að leita aðstoðar sálfræðings við að takast á við það og vanlíðan þína í sambandi þínu við kærasta þinn. En fyrst skaltu samt leita til læknis vegna þess sem ég nefndi hér að framan.

Gangi þér vel,
Sigtryggur Jónsson,
sálfræðingur