Hæ hæ, getur blöðrubólga haft einhver áhrif á blæðingar? Hef ekki farið á blæðingar síðan að ég fékk blöðrubólgu og er núna þremur vikum of sein á blæðingum. Tíðahringirnir hafa verið reglulegir hjá mér og ég er búin að fá neikvæð óléttupróf. Getur þetta tengst? Og ef ekki hvað gæti verið að?
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina
Tíðahringur kvenna stjórnast af hormónum frá heila og eggjastokkum, og er dæmigerður tíðahringur um 28 dagar þó eðlilegt geti verið að tíðahringurinn sé allt frá 21 degi upp í 45 daga. Þar sem að tíðahringurinn stjórnast af hormónum er ýmislegt sem getur haft þar áhrif á. Breyting á lífsháttum getur haft mikil áhrif á tíðahringinn, mikið álag eða steita, ákveðin lyf, getnaðarvarnir o.fl., er allt eitthvað sem getur haft áhrif á tíðarblæðingar hjá konum. Til eru vísbendingar um það að vegna þessa hormóna sem stjórna tíðahringnum getur reglulegt kynlíf og nærvera við karlmenn haft áhrif á tíðahringinn. Eins er það þekkt að konur sem eyða miklum tíma saman verði oft samferða þegar að kemur að tíðahringnum, og þar einsog áður spila hormón inní.
Blöðrubólga og þvagfærasýkingar eiga í sjálfu sér ekki að hafa áhrif á tíðahringinn, en það getur þó farið eftir alvarleika sýkingarinnar. Ef um er að ræða svæsna sýkingu er möguleiki á því að það geti orðið einhver röskun á hormónastarfsemi.
Í mörgum tilfellum er óljóst hvað veldur því að konur séu seinar á blæðingar eða séu styttra eða lengur á blæðingum en þær eru vanar. Í flestum tilfellum er ekki um neitt alvarlegt að ræða og flestir fara svo aftur í eðlilegt far eftir einn tíðarhring eða svo. Ef svo er ekki, konur fara ekki á blæðingar og fá neikvætt þungunapróf þó liðnir séu tveir tíðahringir (eða um 8 vikur frá seinustu blæðingum), konur fá óvenju miklar eða langar blæðingar, eða konur fá mikla verki ólíkt þeim tíðarverkjum sem þær eru vanar ætti alltaf að leita til læknis, hvort sem það sé kvennsjúkdómalæknir eða heimilislæknir. Eins ef viðkomandi er órólegur yfir breytingum eða í vafa um eitthvað í tengslum við tíðahringinn eða blæðingar hjá sér er alltaf gott að heyra í sínum heimilislækni.
Gangi þér vel
Erla Guðlaug Steingrímsdóttir, Hjúkrunarfræðingur.