Spurning:
Sælir sérfræðingar góðir. Ég er 33 ára karlmaður og lenti í því fyrir nokkrum dögum að við fullnægingu fann ég fyrir töluverðum sársauka í sáðrásinni. Þ.e. sáðrásinni eftir limnum endilöngum. Svo þegar að ég fór og þvoði mér þá sá ég að blóð kom út úr limnum, mjög lítið að vísu. Svo daginn eftir sá ég að eilítið blóð kom út með þvagi. Síðan þá hefur ekkert borið á neinu óeðlilegu. Hvað gæti þetta verið og er einhver ástæða fyrir mig að hafa áhyggjur af þessu?
Kveðja Blóðheitur.
Svar:
Hinn töluverði sársauki sem þú fannst fyrir kemur væntanlega frá þvagrásinni sem liggur eftir limnum, en ekki sáðrásinni sem opnast inní blöðruhálskirtilinn innst í þvagrásinni nærri blöðruhálsinum. Algengustu skýringar á þessum einkennum er rof á æðum í slímhúð þvagrásar og/eða bólga á svæðinu og þá jafnvel í blöðruhálskirtli eða sáðblöðrum. Áverki getur einnig orðið við samfarir eða sjálfsfróun og blæðing í framhaldinu. Mjög sjaldgæft er að einhverjar alvarlegar orsakir liggi hér að baki þar eð þú ert einungis 33 ára, en sökum þess að þú sást blóð koma út úr þvagrásinni sem og í þvagi daginn eftir, þá er mikilvægt að láta lækni skoða sig og þá er fyrsta rannsókn að rannsaka þvagið og sjá hvort blóð sjáist í því við smásjárskoðun. Frekari rannsóknir ráðast í framhaldi af skoðun læknisins og þá er yfirleitt um að ræða þvagrásar- og blöðruspeglun og röngenrannsókn af þvagfærum ef blóð sést í þvaginu. Þú skalt sömuleiðis athuga hvort e-r litarbreyting (brúnt, rautt) sé á sæðinu. Bestu kv.,Valur Þór Marteinssonsérfr. í þvagfæraskurðlækningum og almennum skurðlækningum