Blóð í hægðum

Spurning:

Komið þið sæl.

Ég er með fyrirspurn varðandi blóð í hægðum.

Ég fékk Voltaren töflur hjá lækni nýlega til að laga verk í síðu vegna tognunar. Ég hef tekið lyfið og einn daginn kom með hægðum mínum. Getur verið að lyfið sé orsökin fyrir blóðinu eða er það eitthvað annað? Hvað á ég að gera í framhaldinu ef þetta lagast ekki?

Svar óskast.

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Til að geta svarað spurningu þinni hefði verið gott að fá nánari upplýsingar um þitt fyrra heilsufar og hversu gamall þú ert. Ekki er ólíklegt að verkurinn sem þú finnur fyrir í brjóstkassanum sé vegna tognunar eins og þú og læknirinn þinn komust að, fyrst þú lagast við að taka Voltaren töflurnar. Voltaren er lyf sem tilheyrir ákveðnum flokki lyfja sem hefur ertandi áhrif á maga og lyfin geta þar af leiðandi valdið því að bólgur og/eða sár myndast í maganum. Magasárum fylgir oft magaverkur en þó þarf það ekki endilega að vera. Ef sár er að blæða í maga skilar blóðið sér annað hvort sem fersk blæðing í uppköstum eða korglituð uppköst eða að hægðir verða svartar og oft illa lyktandi. Þú lýsir því að hafa haft ferska blæðingu með endaþarmi og því ekki líklegt að það tengist töku á Voltaren.

Það er erfitt að segja hvaðan sú blæðing kemur án þess að skoða málið betur en t.d. getur blæðing verið frá gyllinæð. Blóð í hægðum þarf alltaf að skoða og finna hver orsökin er og því hvet ég þig eindregið til að hafa samband við heimilislækninn þinn til að fá úr því skorið hvert vandamálið er.

Gangi þér vel,
Kveðja, Sólveig Magnúsdóttir, læknir.