Spurning:
Góðan dag og takk fyrir góða þjónustu.
Þannig er mál með vexti að ég hef verið að kljást við þrálátar blóðnasir sem virðast koma í tíma og ótíma og svoleiðis hefur það verið síðustu 3 daga og það nokkrum sinnum á dag. Móðir mín er sjúkraliði og ég lét hana mæla blóðþrýstinginn. Það kom á daginn að hann var 139 efri og 98 neðri, en miðað við það að ég er ekki nema 21 árs ætti hann frekar að vera 120 efri og 80 neðri, þannig að þetta er talsvert hátt. Sú skýring sem mér dettur einna helst í hug er sú að ég er að taka inn koreu ginseng hylki. Ég var að velta því fyrir mér að þar sem maður verður svona ör af þeirri notkun, gæti það jafnvel orsakað þennan háa blóðþrýsting. Ég veit þetta ekki fyrir víst og þess vegna langar mig að beina þessu til þín og vona að þú getir gefið mér einhver svör, t.d. hvort ég þurfi að leita til læknis eða hvort ég eigi að hætta að taka þetta ginseng inn eða eitthvað annað. Ég er nefnilega orðinn frekar þreyttur á að sitja t.d. í vinnunni og svo fer bara allt af stað og áður en ég veit af er allt orðið rautt í kringum mig og það gildir einu hvort ég leggst eða set eitthvað í nösina, það stoppar ekki rennslið.
Með von um einhverjar skýringar.
Kveðja,
Einn á stanslausum „blæðingum“.
Svar:
Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.
Blóðnasir geta verið afar hvimleitt vandamál og valda sjúklingum miklum óþægindum þó sjaldnast séu þær hættulegar. Það hefði verið gott að vita hvort þú átt vanda til að fá blóðnasir eða hvort þetta er alveg nýtt vandamál og hvort blæðir úr annarri nösinni og þá hvort það er alltaf sú sama eða báðum. Blóðnasir eru tiltölulega algengar hjá börnum og ungu fólki og hafa tilhneigingu til að koma oftar en einu sinni, jafnvel töluvert oft. Orsakir finnast oft ekki, en blæðingin er tilkomin vegna þess að æðar í nefi rofna og þá blæðir úr þeim. Algengast er að það séu æðarnar sem liggja í miðnesinu sem rofna. Í flestum tilfellum er auðvelt að stoppa blæðinguna og ekki þarf að leita læknis, en í einstaka tilfellum gefur skemmdin í æðaveggnum sig aftur og aftur og þarf þá læknir að meðhöndla vandann.
Blóðnasir sem tilkomnar eru vegna hækkaðs blóðþrýstings eiga oftar upptök sín ofarlega í nefinu og oft erfitt að stöðva þær, í þeim tilfellum er einnig oftar um að ræða eldra fólk. Ég myndi ráðleggja þér, þar sem þú hefur verið að fá tíðar blóðnasir síðustu dagana, að hætta að taka gingseng og sjá hvort ástandið batnar og einnig að hafa samband við þinn heimilislækni og fá hann til að fylgjast með blóðþrýstingnum og finna blæðingarstaðinn í nefinu og meta hvort eitthvað er hægt að gera til að stöðva blæðingarnar.
Gangi þér vel.
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.