Spurning:
Komiði sæl.
Mig langar til að spyrja hvenær uppskurðar er ætlast vegna góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli. Ég pissa tvisvar á nóttu, en mun oftar á daginn, þar sem mér hefur tekist að halda niðri sykursýki 2 með því að drekka mikið vatn, auk þess að nota þrekhjól heima hjá mér svo til daglega. Spurningin er því sú, hvort nauðsynlega sé þörf á uppskurði vegna stækkunarinnar á kirtlinum eða ekki, meðan ég get komið þessu vel frá mér. Reyndar er þrýstingur eftir að hafa pissað fyrstu bunu sem er yfirleitt mikil, en svo verð ég að bíða um stund eftir lokabunu, sem yfirleitt er lítil, en þrýstingurinn gerir það að verkum að ég veit raunar ekki hvenær ég er búinn. Þá hætti ég bara og þrýstingurinn hverfur, þannig að ég er búinn að tæma blöðruna að mér finnst. Gott væri að fá svar við þessu. Með bestu kveðju, J.
Svar:
Sæll, svar mitt er þannig:Aðgerðir við góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli eru yfirleitt ekki gerðar nema sjúklingar hafi veruleg þvaglátaeinkenni, svari illa lyfjameðferð (ef möguleg) við þessum einkennum ellegar séu með fylgikvilla eins og lélega blöðrutæmingu, þvagteppu, endurteknar sýkingar og blóðmigu. Einkenni þín eru allnokkur, en rétt væri að þú færir til læknis og þar ætti að skoða blöðruhálskirtilinn og athuga hvort þú tæmir þvagblöðruna nægilega vel. Frekari ráðleggingar eða rannsóknir réðust þá af slíkri skoðun.Bestu kv.,Valur Þór Marteinsson