Spurning:
Sæl.
Ég er komin 34 vikur á leið með mitt fyrsta barn og hef verið eitthvað skrítin síðustu vikuna, mér finnst skapabarmarnir og allt það svæði vera eitthvað bólgið, eða upphleypt, hvað getur þetta verið og hvað get ég gert? Þetta veldur mér svo sem engum óþægindum, ég bara veit af þessu. Svo fæ ég stundum eins og harðsperrur í nárann sem gera mér erfitt með gang, þær koma sérstaklega hægra megin en hverfa vanalega fljótlega.
Með fyrifram þökk
Svar:
Það er mjög algengt að þegar líður nær fæðingu komi dálítill bjúgur í skapabarmana þeir stækka og verða teygjanlegri. Finnst mér það líklegasta skýringin en önnur skýring gæti verið æðahnútar sem einnig koma nokkuð oft í skapabarma á meðgöngu. Þó er algengara að konur finni frekar til ef um æðahnúta er að ræða. Besta ráðið við þrota að neðan er að nota kalda bakstra, hreyfa sig reglulega og hvílast vel þess á milli.
Harðsperrurnar í nárunum eru líklega vegna bandanna sem halda leginu – nú eru þau mjög strekkt og því getur lítilsháttar bolvinda gefið óþægindi. Einnig getur þetta verið út frá gindarliðbödunum sem eru orðin mjög mjúk og halda því ekki eins vel þannig að eftir t.d. búðarferð með þunga körfu eða mikið stigaráp getur þú fundið fyrir grindarverkjum.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir