Bólur í andliti vegna pillunnar?

Spurning:
Ég byrjaði ekki fyrir svo löngu á pillunni og tegundin er Gynera*28. Síðan ég byrjaði á henni hef ég fengið bólur í andlitið, ekkert venjulegar heldur svona rosalega djúpar og fullt af þeim. Er þetta bara eitthvað sem er á meðan líkaminn er að jafna sig á þessum hormónum eða verður þetta alltaf svona? Hvað á ég að gera? Skipta um tegund strax eða klára þessa 3 mánuði?

Svar:
Ágæti fyrirspyrjandi.

Án þess að þekkja sögu þína nánar, getur ástand það sem þú lýsir komið upp af notkun velflestra pillutegunda, þó svo það sé sjaldgæft. Ef þetta er svona mikið er ekki líklegt að það batni, svo rétt væri að hætta þegar núverandi pilluspjald er búið og ræða við lækni þinn um aðra tegund veljir þú að halda áfram á pillu sem vörn.

Gangi þér vel
Arnar Hauksson dr med