Breytingar á blæðingum


Ég (20 ára kona) hef alltaf verið á tiltölulega reglulegum blæðingum, en er núna orðin rúmri viku of sein. Ég hef verið óeðlilega þreytt undanfarið og með tíðaverki í núna 3 vikur sem virðast ekkert ætla að linna.

Ég tók þungunarpróf 5 dögum eftir að blæðingar hefðu átt að hefjast og það var neikvætt, svo ég velti fyrir mér hvað gæti valdið þessu, þar sem ég hef engu breytt nýlega- ekkert auka stress, engin breyting á líkamsþyngd, sama mataræði og dagleg virkni…
Ég hef verið á sömu getnaðarvörninni í 3 ár (þó með pásu þegar ég varð ólétt að syni mínum fyrir 2 árum) og engar breytingar þar á.

Kv. Ein þreytt á túrverkjunum

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Líkaminn er flókið fyrirbæri og margt sem getur komið til greina í slíkum tilfellum. Ég hvet þig fyrst og fremst að fara til kvensjúkdómalæknis til að fá frekari svör og skoðun. Ég mun hins vegar telja upp nokkrar hugsanlegar ástæður fyrir miklum tíðarverkjum og seinkuðum blæðingum:

– Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (PCOS)

– Ýmsir bólgusjúkdómar í meltingarfærum

– Vandamál í skjaldkirtli

Aðrar hugsanlegar ástæður eru álag/stress, breytingar á  þyngd (of létt eða of þung), blöðrur á eggjastokkum eða breytingar á getnaðarvörn. En þar sem þú telur ólíklegt að einhverjar af þessum ástæðum geti átt við, þá tel ég æskilegt að þú haldir áfram að fylgjast með tíðarhringnum. Varðandi verkina ráðlegg ég þér að ráðfæra þig við lækni þar sem það er ekki eðlilegt ástand að vera með stanslausa verki og gott að vita hver orsökin sé.

Gangi þér vel!

Kveðja,

Rebekka Ásmundsdóttir,

hjúkrunarfræðingur