Spurning:
Þriggja ára með rauða hvarma. Virðist oft á tíðum vera afar veiklulegur með ofangreind áherslueinkenni. Annars eðlilegur, þ.e.a.s. fær kvef eins og aðrir en fríar sig frá því eðlilega. Er oftast afar þreyttur á kvöldin og sofnar snemma, fyrirhafnarlaust. Vaknar einnig snemma. Er lystarlítill og hefur verið þannig lengi. Hvað geta rauðir hvarmar sagt okkur?
Svar:
Komdu sæll.
Rauðir hvarmar benda ótvírætt til hvarmabólgu. Hvarmabólga er nokkuð algeng en er þó oftar í eldri börnum en þriggja ára. Hvarmabólga er náskyld og raunar orsakar hin frægu vogris sem flestir kannast við. Um er að ræða truflun í fitukirtlum augnloka vegna bólgunnar og blása kirtlarnir þá út. Um orsakir hvarmabólgunnar sjálfrar er ýmislegt á huldu, en þó bendir margt til að um ónæmissvar gegn bakteríum sé að ræða. Þetta ónæmissvar veldur dæmigerðum bólguviðbrögðum sem kemur út sem roði á hvörmum með tilheyrandi óþægindum, þurrki og sviða. Besta meðferðin við hvarmabólgu er heitir bakstrar og hvarmaþvottur, gjarnan með heitum þvottapoka. Þessu er þó erfitt að koma við hjá svo ungum börnum. Oft er hvarmabólga hjá svo ungum einstaklingum meðhöndluð með sýklalyfjakremum af og til, jafnvel með sterasmyrslum, en þó ber að fara varlega í slíkt og alls ekki án undanfarandi vandlegrar skoðunar augnlæknis. Í einstaka tilfellum þarf að meðhöndla börnin með sýklalyfjamixtúrum um munn í einhvern tíma. Dæmigert er að ástandið batni verulega af sjálfu sér. Það getur síðan gosið upp af og til, ósjaldan eftir kvef og flensur, og þarf þá oft að meðhöndlast með ofangreindum ráðum.
Ég myndi greina þetta hjá augnlækni áður en lengra er haldið.
Bestu kveðjur og gangi ykkur vel,
Jóhannes Kári.