Spurning:
Kæra Dagný, ég átti mitt fyrsta barn þann 2.september sl. og hefur allt gengið bara nokkuð vel. En ég er samt að velta tvennu fyrir mér. Annað: Brjóstagjöfin fór hálf klaufalega af stað hjá mér. Drengurinn saug kröftuglega og tók brjóstið strax. En ég var með frekar flatar geirvörtur þannig að ekki leið á löngu þar til ég fór að finna mikið til og þá kom í ljós að drengurinn tók gerivörtuna mjög vitlaust. Ljósa mín benti mér á að kaupa mexikanahatt sem og ég gerði og allt gekk vel. Geirvörturnar gréru og ég fór að gefa drengnum eðlilega aftur. En fljótlega fór ég aftur að finna til eymsla í hægri geirvörtunni þannig að ég notaði hattinn bara á það brjóst þar til það gréri. Gjöfin gekk vel vinstra megin en sama hvaða stellingar og hundakúnstir ég leik, alltaf tekur drengurinn geirvörtuna skakkt þannig að hún hvítnar að ofanverðu alltaf fer ég að finna til eftir 2-3 skipti. Hvað er til ráða? Og svo hitt: Eiga konur ekki að koma í einhverskonar eftirskoðun eftir ákveðinn tíma eftir fæðingu? Það hefur enginn talað um slíkt við mig og þykir mér skrítið. Kær kveðja, strumpamamma.
Svar:
Það er erfitt að greina af hverju hann tekur vörtuna alltaf skakkt svona í gegnum tölvuna en ef hann tekur hina rétt ætti þetta að ganga smám saman. Prófaðu að ,,leggja" vörtuna ofan á tunguna á honum þegar hann gapir eftir vörtunni þannig að hún fari vel aftur í munninn og haltu honum svo þétt upp að þér meðan hann sýgur. Oftast er orsök svona hvítrar vörtu það að þau ,,leka" fram á brjóstið þegar þau taka sér hlé í gjöfinni og sjúga svo skakkt þegar þau byrja aftur þannig að þú skalt fylgjast með honum alla gjöfina og taka hann af ef hann lekur af. Annars er í lagi fyrir þig að nota hattinn áfram ef allt gengur vel en vertu samt á verði fyrir því að hann getur orsakað minni mjólkurmyndun og hættu á stíflum.
Varðandi eftirskoðun þá er hún engin skylda en margar konur kjósa að hitta kvensjúkdómalækni um 8 vikum eftir fæðingu til að fá getnaðarvörn. Ef fæðingin var eðlileg og þér líður vel í grindarholi og botni liggur ekkert á ef þið notið smokk við samfarir til að koma í veg fyrir getnað.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir