Brjóstagjöf og frjósemi?

Spurning:
Góðann daginn,

Ég er 39 ára gömul og mig langaði að spyrja um tvennt sem tengist meðgöngu/fæðingu.
1) Árið 2002 varð ég ófrísk að mínu fyrsta barni. Í 19 vikna sónarnum var mér sagt að líkur á því að ek. fæðingargallar væru til staðar væru 1/ ca 900 eða eins og hjá 26 ára gamalli konu. Mig langaði að spyrja, hversu mikið aukast líkurnar með hækkandi aldri? Hefur fjölskyldusaga eitthvað að segja?
2) Ég er enn með barnið á brjósti ( þó að það sé mun minna en áður) 1. blæðingar byrjuði í nóvember 2002 og í fyrsta sinn nú í febrúar voru 28 dagar á milli  bl. eins og var fyrir barn. (voru alltaf 28 +/- ca 2 á milli bl) Sp er: Ef að ég væri að spá í annað barn, hversu mikil áhrif er brjóstagjöfin að hafa á frjósemina? Ég var nefnilega að hugsa um að halda þessu eitthvað áfram, (okkur finst þetta báðum svo notó 😉 en ef áhrifin eru mikil á hugsanlega frjósemi (þar sem aldurinn fer hækkandi) þá myndi ég væntanlega endurskoða stöðuna eitthvað ef svo væri. Með fyrirfram þakklæti fyrir veitt svör, kv

Svar:
Það er hæpið að hægt sé að segja fyrir um líkur á öllum fósturgöllum út frá sónarskoðun við 19 vikna meðgöngu en hins vegar er slíkur líkindareikningur notaður við skoðun á hnakkaþykkt við 11 – 14 vikna meðgöngu til að meta líkur á litningagöllum og hjartagöllum. Þær tölur sem við höfum gefa til kynna að líkur á Downs heilkenni (sem algengasti litningagallinn þar sem börn geta lifað fram yfir fæðingu) eru við 25 ára aldur 1/875 en eykst með hækkandi aldri og eru við 35 ára aldur 1/270 og við 40 ára aldur 1/75. Með sónarskoðun er einungis hægt að meta líkur á litningagöllum en til að fá áreiðanlega útkomu þarf legvatnsástungu. Í sónar er hins vegar hægt að sjá flesta byggingagalla ef þeir eru til staðar hjá fóstrinu þótt aldrei verði hægt að sjá allt sem verið getur að.

Hvað varðar áhrif brjóstagjafarinnar á frjósemina má leiða líkum að því að þau fari þverrandi þegar barnið er farið að nota brjóstið sem huggara en ekki sem einu fæðugjöf og þegar mjólkurmyndun hefur þorrið til muna og blæðingar eru farnar að vera reglulegar má telja að frjósemi sé komin til baka að því mæli sem hún verður. Frjósemi minnkar hins vegar með aldrinum þannig að hún er ekki sú sama og hún var þegar þú varðst barnshafandi 2002 og það gæti mögulega tekið þig lengri tíma að verða barnshafandi – burtséð frá brjóstagjöfinni. Ef hins vegar dregst á langinn að frjóvgun verði (3-6 mánuðir) gæti borgað sig að hætta brjóstagjöfinni vegna þeirra örlitlu áhrifa sem hún getur haft á egglos og legslímhúð. Vonandi gengur þetta þó án þess að skerða brjóstagjöfina úr því ykkur líður svona vel með hana.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir