Brjóstagjöf og mislingar!!

Góðan dag
Nú er ekki annað í fréttum en mislingar að greinast i fullorðnum og börnum á íslandi – mjög slæm þróun!
Nú er ég með einn 7 vikna og 2 önnur börn sem eru að sjalfsögðu bólusett við þessu og við bæði bólusett á sínum tíma.
Lillinn er bara á brjósti – er hann eitthvað verndaður af þessum óþverra í gegnum brjóstagjöfina frá mér?
Og annað þarf maður ekki að smitast af mislingum til að geta smitað aðra – s.s þeir sem að eru bólusettir er í lagi að umgangast það fólk – vil nú ekki vera að einangra alla fjölskyldumeðlimi i 2-3 vikur!

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Brjóstagjöfin gefur að öllum líkindum litla eða amk mjög takmarkaða vörn. Ef þið eruð öll bólusett ættuð þið hin  að vera vel sett og ástæðulaust að kyrrsetja alla fjölskylduna.

Mislingaveiran er hins vegar mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. hósta og hnerra). Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið. Ég mæli því með því að hafa lillann í sem minnstum samskiptum við aðra og sem mest heima við næstu vikurnar.

Handþvottur og almennt hreinlæti skiptir hér miklu máli og allir sem koma nálægt drengnum ættu að byrja á því að þvo sér vel um hendur áður en þeir snerta hann og þeir sem eru með kvef eða hita eiga ekki að koma í heimsókn.

Gangi ykkur vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur