Brjóstagjöf og sílikon

Spurning:
Mig langar til að forvitnast um hvernig konum hefur gengið með brjóstagjöf eftir sílikon brjóstaaðgerð. Fyrir tveimur árum fór ég í aðgerð vegna fæðingargalla þar sem hálfpartinn gleymdist að skapa á mig brjóst. Að vísu var ég þá búin að vera með tvö börn á brjósti í ca 9 mánuði hvort og gekk það eins og í sögu enda var ég í sæluvímu að vera loksins eins og kvenmaður í útliti. Ég hafði alltaf liðið fyrir þetta, og fannst mér vanta þetta kvenlega. Svo að endanum tók ég þessa stóru ákvörðun um að fara í brjóstastækun, sem algjörlega breytti lífi mínu og sjálfsáliti.

Nú er ég ólétt af þriðja barninu mínu. Ég er með mjög miklar tilfinningar í brjóstunum og jafnvel meiri en áður en ég fór í aðgerðina. Það virðist vera alveg eðlileg breyting á þeim við meðgönguna. Sílikonpúðinn var látinn undir vöðva og læknirinn sagði að mér að það ætti að vera óhætt að hafa barn á brjósti. En til öryggis langar mig að fá álit hjá öðrum lækni.

kær kveðja Með fyrir fram þökk.

Svar:
Það er gaman að heyra hvað aðgerðin hafði góð áhrif á andlega og líkamlega líðan þína. Ég er sammála þínum lækni. Eftir brjóstastækkun með siliconpúðum á brjóstagjöf að vera í fínu lagi og hefur ekki áhrif á mjólkina. Eins og þú veist sjálfsagt er púðinn settur á bak við brjóstið og eins og í þínu tilfelli líka undir vöðvann, þannig að aldrei er farið inn í sjálft brjóstið. Ég vona síðan að allt gangi vel hjá þér.

Kær kveðja. Ottó Guðjónsson , lýtalæknir