Spurning:
Var að velta fyrir mér brjóstagjöf með silíkon undir kirtlinum. Hef haft það í fimm ár. Er það öruggt? Var með fyrsta barn á brjósti en var þá ekki búin að fara í aðgerð, það gekk vel og ég vil endurtaka það. Hef heyrt að það sé hættulegra fyrir barnið sé það undir kirtlinum en ekki vöðvanum, er það satt? Á að eiga eftir þrjá mánuði.
Svar:
Það eru mjög skiptar skoðanir um skaðsemi/skaðleysi sílikons í brjóstum og rannsóknum ber ekki saman hvort það sílikon sem mögulega er til staðar í brjóstamjólk sé barninu skaðlegt eða ekki. Gamlar sílikonfyllingar leka mögulega meira en nýrri fyllingar og sé fyllingin undir kirtilvefnum er upptakan nær mjólkurkirtlunum þannig að meira síast mögulega af því inn í mjólkina. Það er svo annað mál hvort það er í það miklum mæli að barnið hafi eitthvað slæmt af því. Séu fyllingarnar heilar og ekki farnar að skemmast tel ég litla hættu á að þær leki nokkru sem nemur út í mjólkina og brjóstamjólk með örlitlu sílikoni er hollari en þurrmjólk sem einnig inniheldur mögulega alls kyns aðskotaefni. Svo þú skalt bara halda þínu striki og mjólka þínu barni.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir