Brjóstastækkun hjá strákum?

Spurning:
Halló! Ég er 18 ára strákur, 73 kíló. Málið er að mér finnst ég hafa óvenjulega stór brjóst miðað við aðra líkamshluta. Ég er ekki mjög feitur og sama hvað ég hreyfi mig mikið þá fara brjóstin aldrei. Geirvörturnar eru líka svolítið stórar. Veist þú hvað þetta er? Getur verið að ég hafi einhverja hormóna frá konum? Þarf ég að taka inn karlhormóna til að brjóstin fari? Þetta angrar mig mjög í daglegu lífi og frábært væri ef þú gætir leiðbeint mér í þessum málum. Er hægt að fara í aðgerð til að láta fjrlægja einhverja fitu úr brjóstunum? Takk fyrir.

Svar:
Komdu sæll! Þetta vandamál með brjóstastækkun hjá strákum er ekkert óvanalegt vandamál. Margir strákar í kynþroska upplifa eymsli í bjóstum og hjá sumum verður stækkun á brjóstum. Þetta verður vegna þess að testosteron (karlkynshormón) getur umbreyst í estrogen (kvenkynshormón), þessi umbreyting gerist aðallega í fituvef og bjóstavefur er mjög næmur fyrir estrogeni. Þessi umbreyting á testosteroni er algjörlega eðlileg og í raun nauðsynleg fyrir eðlilegan kynþroska og að lengdarvexti ljúki. Rétt er að fara í skoðun hjá innkirtlalækni eða barnainnkirtlalækni til að gera hormóna uppvinnslu. Það er sjaldnast eitthvað óeðlilegt að finna en nauðsynlegt að kanna það til hlítar. Þegar að hormóna uppvinnslu er lokið kemur vel til greina að laga þetta með skurðaðgerð. Tiltölulega einföld aðgerð, eins og venjuleg bjóstaminnkun. Þetta er hægt að ræða þegar að þú hittir innkirtlalækninn.
Ég vona að þetta svari þínum spurningum.

Kveðja

Ragnar Bjarnason DrMed
Sérfræðingur í innkirtlasjúkdómum barna og unglinga