Spurning:
Sælir doktorar.
Ég hef nokkrar spurningar og set þær hér í eina og sömu fyrirspurnina. Þið megið svo gjarnan gera athugasemd ef þið viljið heldur að ég geri eina fyrirspurn fyrir hverja spurningu.
Fyrstu tveimur spurninunum beini ég að ljósmóður eða kvensjúkdómalækni:
1. Ég er ólétt og hef í smá tíma fundið fyrir eins og þrota í kringum kynfærin og er smá aum. Ég er ekki með sveppasýkingu, ég hef fengið svoleiðis og þetta er ekkert líkt, enginn kláði eða neitt þess háttar. Einnig finn ég fyrir að ég er aum inni í leggöngunum við vissar stellingar í samförum. Er þetta eðlilegt fyrir meðgöngu eða ætti ég að láta líta á mig?
2. Eru líkur á fyrirburafæðingu með of tíðum fullnægingum? Þá á ég við hvort sá samdráttur geti komið af stað hríðarsamdráttum fyrir tímann (ég er komin 28 vikur)?
Þriðju spurningunni er ég ekki viss hvert ég á að beina… hugsanlega til bæklunarlæknis eða einhvers þess háttar.
3. Fyrir um átta árum – þegar ég gekk með strákinn minn – þá byrjaði ég að finna fyrir að sinarnar í höndunum (tengi það alla vega við sinarnar) virka ekki eðlilega. Það er að segja að þegar ég kreppti hnefann þá var hendin lengi að opnast aftur og eins og kæmi smá spasmi í hana – þær voru báðar svona. Ég ræddi þetta aðeins við ljósmóðurina og hún gaf ekki mikil svör og ég leitaði ekki frekar. Þetta hvarf aldrei alveg og til dæmis ef mér verður kalt á höndunum þá finn ég fyrir þessu. En núna er ég aftur ólétt og finn mjög MIKIÐ fyrir þessu í öllum sinum og sérstaklega í fótunum. Það má eiginlega segja að mér líði stundum eins og Tempur dýnu ef þú veist hvernig þær eru – þú potar í þær og þær eru lengi að komast aftur í samt horf. Ég vona að ég hafi gert mig skiljanlega með þetta og að hægt sé að benda á hvað þetta gæti hugsanlega verið og hvert ég get þá leitað, þ.e.a.s. hvernig læknis – ég get ekki farið til heimilislæknisins því ég er búsett erlendis.
Takk kærlega fyrir.
Svar:
1. Það er mjög algengt að það komi bjúgur á kynfæri með hita og ónotum. Slíkt er eðlilegt, hættulaust en getur gefið óþægindi. Hins vegar er ekki hægt að skera úr um hvort eitthvað óeðlilegt er í gangi nema með skoðun. Ef þér versnar væri rétt að líta á þig.
2. Ef legháls er viðkvæmur er það mögulegt annars er það mjög sjaldgæft.
Bestu kveðjur.
Arnar Hauksson dr med
Varðandi 3. spurninguna væri skynsamlegt hjá þér að leita til gigtarlæknis.
Kveðja, ritstjóri.