Ég hef verið á pillunni í um hálft ár og er núna í annað skiptið að fá brúna útferð sem stendur yfir í viku til 10 daga. Er á mycrogyn. Er þetta eðlilegt eða ætti ég að prófa að skipta um pillu?
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina
Þú getur átt von á brúnni útferð af og til fyrstu mánuðina sem þú ert að nota pilluna og það er venjulega ekkert til þess að hafa áhyggjur af. Svona útferð og smá milliblæðingar geta komið á meðan að líkaminn er að venjast hormóninu í pillunni en einnig getur þetta verið út af því að þessi pilla hentar þér ekki. Það er talið upp í fylgiseðli með Microgyn að það sé mjög sjaldgæf aukaverkun að 1 kona af 10.000 notendum fái truflun á tíðablæðingum og breytingu á útferð. Gefðu þessu aðeins lengri tíma en ef þetta heldur áfram skalltu hafa samband við heilsugæslulækni með það fyrir augum að skipta um pillu.
Gagni þér vel
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur