Brúnleit útferð á meðgöngu?

Spurning:
Góðan dag.
Ég er 33 ára kona og er ég er ófrísk, komin ca. 8 vikur. Ég hef verið að fá brúnleita útferð undanfarið og smá seiðing í leginu. Síðast þegar við hjónin höfðum samfarir kom pínulítið rautt blóð – ekki brúnleitt, en núna er útferðin stundum brún. Hef lesið hér á spjallsíðum að fleiri hafa lent í þessu en mér finnst ekki bera saman hvað þeim hefur verið ráðlagt. Ég á ekki fyrsta tíma í mæðraskoðun strax en ætti ég að fara fyrr? Er óhætt að stunda kynlíf meðan þetta er svona? Eitthvað sem þú getur ráðlagt mér, nema að ég eigi bara að drífa mig niðurá mæðravernd? Með fyrirfram þökk.
Svar:

Svona smáblæðingar eru algengar í upphafi meðgöngu og eru yfirleitt eftirstöðvar bólfestublæðingar eða úr leghálsinum. Fersk blæðing getur þó verið merki um yfirvofandi fósturlát og ætti að skoða betur ef hún heldur áfram meira en 2-3 klst. eða henni fylgja verkir. Ef útferðin verður aftur brúnleit eru allar líkur á að allt sé í góðu lagi, blæðingin gæti verið úr leghálsi. Meðan er að blæða svona af og til ættir þú þó að sleppa samförum og að fá fullnægingu, a.m.k. í viku eftir að blæðir. Ef þessi brúnleita útferð hættir ekki á næstu 2 vikum þá gæti hún þó bent til sýkingar eða dulins fósturláts og væri e.t.v. rétt að láta lækni kíkja á þig.
Vona að þetta sé allt saman í lagi og að þér gangi vel.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir