Þrýstingsverkir niður á milli fóta

Spurning:
Ég er ólétt og komin 17 vikur á leið. Á 12. viku fór ég að finna fyrir þrýstingsverkjum niður milli fótanna, sem versna þegar líður á daginn. Á erfitt með að standa og vil helst bara leggjast út af. Ég hélt fyrst að ég væri með svona lélega grindarbotnsvöðva og er búin að vera á fullu að æfa þá. En þetta hefur bara versnað, núna er ég oft svo aum að ég get varla setið. Stundum finnst mér ég vera bólgin. Hef fundið fyrir svipuðum verkjum þegar ég var á blæðingum og hafði egglos. Er þetta eðlilegt?

Svar:

Af þessari lýsingu að dæma tel ég líklegast að þú sért með æðahnúta við leggöng og/eða í skapabörmum. Grunur minn byggist einnig á því að þú hefur fundið fyrir þessu í tengslum við egglos og blæðingar. Sé þetta raunin er fátt hægt að gera. Þú skalt þó gæta þess að auka ekki þrýsting á kvið með þröngum fatnaði eins og sokkabuxum og rembingi við hægðalosun, halda hægðum mjúkum og ekki halda lengi í þér þvagi. Mörgum konum finnst gott að buna köldu vatni yfir spangarsvæðið til að minnka þrotann í æðunum og einnig getur verið gott að taka þungann af grindarbotninum m.þ.a. leggjast á 4 fætur með botninn í loftið smástund þegar þetta er mikið að plaga þig.

Önnur möguleg skýring á þessum verkjum er byrjandi grindarlos í lífbeini og þá er það hvíldin sem hefur mest að segja.

Biddu lækninn þinn að líta á þetta til að greina hvort þetta séu æðahnútar, grindarlos eða eitthvað annað.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir