Spurning:
Central Diabetes Insipidus: Var greind 1995 svo og 3 af mínum börnum. Vil gjarna vita um DI í sambandi við svæfingu, túrverki, erfiðleika fyrir lífmóður að opnast við fæðingu, lágan blóðrýsting, blóðþrýstingsfall og ekki síst ættgengi.
Virðingaf.
Svar:
Central Diabetes Insipidus stafar af skorti á ADH (antidiuretic hormone) sem framleitt er í undirstúku heila (hypothalamus). Þetta hormón hjálpar líkamanum að halda í vökva og einkennin af skorti eru því þorsti og tíð þvaglát. Orsakirnar eru oftast slys eða áverkar á höfuð og heilaskurðaðgerðir, en í 30-50% er orsökin óþekkt. Talið er hugsanlegt að þau tilvik þar sem orsök er ekki augljós sé um að ræða sjálfsofnæmissjúkdóm þó mönnum hafi ekki tekist vel að sanna þetta í tilraunum með því að mæla mótefni gegn undirstúkunni. Central DI er ekki sérstaklega ættgengt enda um að ræða mjög sjaldgæft fyrirbæri. Sjúklingar með central DI geta fengið skort á öðrum heiladinglushormónum síðar.
Meðferðin er lyf sem heitir Minirin (desmopressin) og kemur sem nefúði, nefdropar eða töflur. Ef tekið er of mikið af lyfinu eykst hætta á vökvasöfnun og blóðnatriumlækkun. Sé lyfið rétt skammtað ætti ekki að vera hætta á blóðþrýstingsfalli né vandamálum tengdum svæfingu. Viðbúið er að auka þurfi Minirin skammta á meðgöngu en ekki er lýst sérstökum vandamálum í fæðingu. Sjúklingar með central DI þurfa á reglubundnu eftirliti að halda og ættu ræða einkenni sem upp koma og gætu tengst meðferðinni við sinn efnaskiptasérfræðing.
Arna Guðmundsdóttir,
Hormóna- og efnaskiptasérfræðingur