Finn ekkert um þetta á íslensku á netinu og þetta er of sérfræðilegt fyrir mína enskukunnáttu.
Er möguleiki að þú getir gefið mér skýringu á íslensku við hvað er að kljást þegar þessi sjúkdómsgreining er fengin?
Sæl/ll,
Compartment syndrome á ser oftast stað í vöðvunum sem tilheyra fótleggnum. Þessum vöðvum er skipt í 4 hópa og þeir eru umluktir bandvefshimnu. Á milli er þeirra eru lítil hólf. Þetta eru þeir vöðvar sem við notum við göngu og hlaup ásamt fleiri hreyfingum og við aukið álag þenjast vöðvarnir út. Himnan gefur hinsvegar lítið sem ekkert eftir og því eykst þrýstingur í hólfinu. Hann eykst við alla þjálfun en fellur við eðlilegar aðstæður aftur eftir um 5 mínútna hvíld. Þegar þrýstingur er hinsvegar orðinn mjög mikill og það tekur meira en 20 mínútur fyrir hann að falla, fer einstaklingurinn að finna fyrir verkjum í fætinum. Þetta er ástand sem algengast er að sjá hjá keppnisfólki. Á byrjunarstigi finnur einstaklingurinn fyrir verkjum við og fyrst á eftir álag, sem hverfur svo við hvíld. Hvað veldur þessum sjúkdómi er ekki að fullu vitað, en uppi eru tilgátur um að þegar þrýstingur í hólfinu eykst minnkar blóðflæðið og þar með súrefnisstreymi til vöðvanna. Þessum sjúkdómi er aftur skipt í bráða fasa og langvinnan fasa.
Langvinni fasinn einkennist af því að verkir aukast við æfingar og leggurinn getur bólgnað upp, en einkenni hverfa eftir 20 – 30 mínútna hvíld. Ef einstaklingur tekur ekki hvíld, versnar ástandið og lengri tíma tekur fyrir blóðflæði að komast í eðlilegt form og um leið aukast líkurnar á að bráðaástand verði. Hér er hvíld mikilvæg til lækninga, ef ástandið lagast ekki með 2 – 3 mánaða hvíld, er í sumum tilfellum framkvæmd aðgerð þar sem losað er um bandvefshimnuna og þar með hafa vöðvarnir meira pláss og það léttir á þrýstingnum.
Bráðafasinn er í raun þegar langvinni fasinn versnar skyndilega. Þrýstingurinn í vöðvahólfinu eykst það mikið að vöðvarnir fá ekkert súrefni og drep kemur í vefina. Þetta getur líka gest við áverka og slys eins og högg. Þessu fylgja miklir verkir og skurðaðgerð þarf til að létta á þrýstingnum og koma í veg fyrir að frekari skemmdir verði.
Gangi þér vel,
Bylgja Dís Birkisdóttir, hjúkrunarfræðingur.