Dicykloverinhydroklorid vegna magakrampa?

Spurning:
Sonur minn fæddist í ágúst. Hann þyngdist illa til að byrja með en tók svo kipp, en nú virðist hann aftur vera hættur að þyngjast. Mér var sagt að gefa honum ábót á brjóstið og ég geri það. Hann fékk líka ávísun á lyfið Dicykloverinhydroklorid vegna magakrampa, því hann var mjög óvær. Hann átti það til að kasta upp, og þá stundum með miklum gusum en eftir að hann fékk lyfið þá hefur það lagast. Mig langar til að vita hvað þú getur sagt mér um þetta lyf, og hvort líkur séu á að það geti dregið úr vexti barnsins sé það notað, þar sem barnið róast og er þá kannski ekki nægilega duglegt að drekka.

Svar:
Það er alltaf erfitt að meta næringarörðugleika án þess að hafa barnið og mömmuna fyrir framan sig. Líklegasta skýring þess að barn þyngist illa er að það fái ekki nóga næringu. Líklegt er að slæleg þyngdaraukning í upphafi hafi stafað af uppköstum barnsins. Það kemur fyrir að hratt mjólkurrennsli valdi uppköstum vegna þess að barnið gleypir mikið loft með mjólkinni. Það getur einnig útskýrt óværð barnsins. Af bréfi þínu má ráða að læknir barnsins hafi ráðlagt þér að gefa ábót, þá væntanlega pela með þurrmjólk, og jafnframt ávísað þessu róandi lyfi á barnið. Ekki kemur fram hversu stór hluti daglegrar næringar er pelamjólk en ef barnið er ekki að þyngjast nóg þarftu annað hvort að lagfæra og auka brjóstagjöfina eða bæta við ábótina. Líði meira en 3 tímar milli gjafa, eða ef þær eru færri en 8 á sólarhring, er barnið líklegast ekki að fá nóg. Ennfremur má ætla að hver brjóstagjafarstund þurfi að endast a.m.k. 30 mínútur og barnið losa vel úr brjóstunum. Ef barnið er mjög sljótt getur farið svo að það nái ekki að fá nóg úr brjóstinu né örva það nægilega til framleiðlu þannig að mjólkin minnkar.

Prófaðu að örva barnið til að taka brjóstið oftar og lengur og athugaðu með að fá mjaltavél til að örva brjóstin þær stundir sem barnið drekkur ekki nægilega vel. Þú getur gefið barninu mjólkina sem kemur í mjöltunum. Svo getur verið gott að nota hjálparbrjóst til að gefa ábótina á brjósti (fæst í versluninni Móðurást). Ennfremur skaltu athuga að barnið klári vel úr brjóstunum áður en þú gefur ábótina en gæta þess þó að þreyta það ekki um of. Fáðu lækninn til að endurskoða lyfjaskammtinn ef barnið er mjög sljótt og úthaldslítið.

Aðalatriðið er þó að næra barnið – hvernig sem það er gert. Fáðu stuðning hjá hjúkrunarfræðingunum í ungbarnaverndinni og einnig getur þú leitað til ljósmæðra eða til brjóstagjafarráðgjafa sem starfar á Kvennadeild Landspítalans.

Vona að þetta fari allt vel.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir