doði í iljum ?

mikill doði í iljum hjá 81 árs gömlum manni ?

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Nú eru nokkrar spurningar sem ég vildi geta spurt þig. Er þetta búið að vera lengi ? Kemur þetta og fer eða er stanslaust ? Hefur þú verið með bakvandamál t.d. brjósklos? 

Doði í fæti getur átt sér margar og margvíslegar orsakir sem sumar eru upprunnar í taug í fætinum en aðrar í miðtaugakerfinu. Algengasta ástæðan fyrir afmörkuðum doða í öðrum fæti er líklega áverki á taug sem getur verið staðsettur hvar sem er frá mjóbaki, þar sem taugin gengur út úr mænunni, og niður að svæðinu þar sem doðinn er.

Slíkur áverki getur m.a. verið þrýstingur (t.d. brjósklos í hrygg), högg, kuldi eða notkun verkfæra sem titra mikið. Ein tegund af þrýstingsáverka á taug sem liggur niður í fót kemur stundum hjá fólki sem situr mikið með krosslagða fætur en þá verður þrýstingur á taug, utanfótar, rétt neðan við hné. Þetta getur valdið doða og máttleysi niðri í fæti. Einnig getur verið um að ræða sykursýki, bandvefssjúkdóm, vanstarfsemi skjaldkirtils, alnæmi, sýkingu í eða við taugina, vítamínskort (einkum B-vítamínskort), áhrif eiturefna eða lyfja og illkynja sjúkdóm.

Ég mæli með að leita til heimilislæknis sem að getur ráðlagt þér með framhaldið.

Gangi þér vel,

Bylgja Dís Birkisdóttir
Hjúkrunarfræðingur