Dofi

Ég er búin að vera með náladofa í hægri hendi síðan á miðvikudag .hann hefur aðallega verið í litla fingri, aftan til í lofa .er þetta bara klemd taug eða einhvað meira. Er með smá sting í hægri herðablaði

Góðan dag og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Orsakir náladofa geta verið fjölmargar, bæði tiltölulega meinlausar en þær geta einnig verið alvarlegs eðlis. Orsakir geta verið við úttaugakerfið eða miðtaugakerfið.

Dofi stafar oftast af truflun á starfsemi taugakerfisins, áverka á taug eða sjúkdómi sem veldur truflun á starfsemi tauga. Algeng ástæða fyrir afmörkuðum dofa í öðrum fæti eða hendi er áverki á taug sem getur verið hvar sem er frá hrygg, þar sem taugin gengur út úr mænunni, og niður að svæðinu þar sem dofinn er. Slíkur áverki getur til dæmis komið vegna þrýstings (t.d. brjóskloss í hrygg), vegna höggs, kulda eða notkun verkfæra sem titra mikið. Dofi í hendi getur einnig stafað af þrýstingi á taugar við olnboga eða úlnlið. Einnig geta ýmsir sjúkdómar valdið dofa.

Ef þú ert með stöðugan dofa eða náladofa í höndum eða fótum ættir þú að fara til læknis og fá sjúkdómsgreiningu og meðferð ef þarf.

Besta kveðja

Sigríður Ólafsdóttir

Hjúkrunarfræðingur