Dóttir mín sýgur puttann

Spurning:

Góðan daginn.

Þannig er að ég á 4 ára gamla dóttur sem hefur sogið þumalputtann svo til frá fæðingu. Til að byrja með var þetta ekki neitt vandamál en núna finnst mér þetta stefna að stærra máli. Hún virðist sjúga puttann þegar hún þarf að bíða eftir einhverju, t.d. alltaf þegar hún ferðast í bíl, horfir á sjónvarpið, situr í stól og er í hjólreiðatúr, ef hún er mjög þreytt og einnig ef eitthvað kemur uppá. Síðan auðvitað alltaf þegar hún fer aðsofa. Þar sem við búum erlendis þá er hún byrjuð í skóla og fyrst sagði hún mérað hún væri ekkert að sjúga puttann í skólanum en núna hef ég komist að öðruog þar er sama málið, ef hún þarf að bíða eftir einhverju þá setur hún alltaf puttann upp í sig. Við höfum reynt að segja henni að þar sem hún er nú orðin þetta stór þá sé þetta ekki sniðugt. Hún virðist skilja það vel, en þegar á reynir er hún fljót að stinga puttanum upp í sig og verða mjög önug. Við höfum reynt að prófa að setja á hana nokkurs konar naglalakk, það sama og er sett áneglur þeirra sem naga neglurnar, en það hefur ekki dugað neitt. Ef þetta hefur verið borið á puttann þá reynir hún fyrst að þurrka þetta af eða stingur puttanum bara upp í sig og sættir sig við annað bragð. Einnig hefur verið reynt að setja plástur, en hann er fljótt rifinn af og puttinn upp í munn. Mér finnst hún nógu gömul til að skilja það sem er sagt við hana, en þar sem þetta puttasog er orðið svo mikill vani þá er erfiðara að fá hana til að skilja alvöru málsins. Hvað getum við gert næst? Hvert ættum við að leita til að finna lausn á þessu máli? Mér finnst ekki nóg að segja að þetta muni eldast af henni,þar sem þetta er orðinn nú þegar mikill vani hjá henni og ég held að takaþurfi á þessu máli fljótlega. Þetta er ekki vandamál hér þar sem við búum, þar sem frekar algengt að sjá eldri krakka sjúga putta en þegar við flytjum heim aftur verður þetta meira mál.

Bestu kveðjur með ósk um einhverjar tillögur.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Auðvitað er það frekar hvimleitt þegar stálpaðir krakkar sjúga fingurinn, en það er hins vegar spurning hvort það sé svona alvarlegt mál eins og mér heyrist að þér finnist það vera, ég tala nú ekki um ef það er almennur siður þar sem þið nú búið. Það er breytilegt eftir aðstæðum hvað okkur finnst vera í lagi að börn og fullorðnir geri, maður hagar sér öðru vísi í kirkju en í partýi, og hjá mörgum gilda t.d. allt aðrar reglur hjá afa og ömmu en heima.

Það er e.t.v. mikilvægara að kenna krökkum ,,hvað passar hvar”, heldur en að reyna að halda því stöðugt niðri sem þau eru að gera. Um leið og maður sleppir eða lítur í aðra átt þá gýs hegðunin upp aftur, svona eins og svampur sem ekki er þrýst á lengur.

Væruð þið t.d. sátt við það að hún sygi fingurinn áfram þegar hún er þreytt og sofnar í bílnum og á kvöldin þegar hún fer að sofa, en þið reynduð að draga úr því á öðrum tímum dags? Ef þið gerið það og tilraunin tekst, þá má vel vera hún stingi upp á því af fyrra bragði að reyna að hætta líka á kvöldin. Það gæti líka gerst ,,af sjálfu sér” ef þið lesið fyrir hana þegar hún er komin upp í og hún sofnar út frá lestrinum.

Oft dugar að setja plástur, hólk eða vont bragð á fingurinn, en samkvæmt lýsingu þinni þá hefur það ekki gefist vel hjá ykkur. Þú lýsir dóttur þinni ekki nánar, en sum börn leita meira eftir skynrænni örvun/sefjun en önnur. T.d. sjúga þau fingurinn, gæla við eyrnarsnepilinn, láta horn af sæng eða teppi leika um andlit sér, og ýmislegt fleira. Mörg þeirra halda hliðstæðri hegðun áfram á fullorðinsaldri.

Þú telur dóttur þína nægilega stóra til að skilja að hún eigi ekki að sjúga á sér fingurinn, og ég reikna fastlega með að hún skilji það vel sem þið eruð að segja við hana. Vandinn er hins vegar sá, að það er eins með krakka og með fullorðið fólk, að þeir gera oft hluti sem ganga þvert á það sem búið er að banna eða útskýra vel að ekki megi/eigi að gera. Með öðrum orðum sagt, ítrekuð fyrimæli og reglur hafa lítil áhrif, ef þá nokkur, ef ekki fylgir einhver umsvifalaus ávinningur því að hlýða fyrirmælunum. Sérstaklega ef hegðunin gerist svo oft – tíðni athafnanna er það há, að við köllum það áráttu.

Til eru aðferðir sem reynst hafa vel til að venja börn af því að sjúga fingurinn. En eins og aðrar aðferðir sem virka til að breyta hegðun og venja krakka á eitthvað sem þau gerir ekki, þá reyna þær oftast meira á foreldra og kennara en börnin sjálf. Við þurfum fyrst og fremst að breyta okkar eigin hegðun svo börnin breyti sinni!

Í þessu sambandi vil ég ráðlegga ykkur að prófa eftirfarandi:

A Fyrst almennt: 1. Segið henni að þið ætlið að hjálpa henni að venja sig af þessum óvana, á daginn.

2. Í stað þess að veita henni mikla athygli með fyrirmælum, bönnum og öðrum viðbrögðum ykkar þegar hún sýgur fingurinn, reynið þá að vei
ta henni mjög mikla athygli þegar hún sýgur hann ekki. Viðbrögð sem fela í sér ákúrur og skammir eru líka athygli og athygli er eitt öflugasta tæki sem við höfum til að viðhalda hegðun sem er í gangi.

3. Mér þykir líklegt að hún sé kelin. Svo notið hvert tækifæri þegar hún er ekki að sjúga fingurinn til að hrósa henni, klappa henni, kyssa hana og knúsa og segið henni um leið að hún sé dugleg stúlka. Mörgum sinnum á dag.

4. Þú tilgreinir nokkrar aðstæður þegar meiri líkur eru til að hún sjúgi fingurinn en ella. Reyndu að fækka þeim aðstæðum og fjölga öðrum. Þú nefnir t.d. biðtíma. Er ekki hægt að stytta þá með því að sinna henni strax, eða láta hana hafa eitthvert viðfangsefni að sýsla við sem fyllir upp í tímann á meðan hún bíður? Þú nefnir einnig hjólreiðar sem dæmi. Það er þá helst að hjólatúrarnir séu ekki svo langir og erfiðir fyrir hana að hún þreytist, og annað í þessum dúr.

B. Aðeins nánar:

Ef ykkur gengur vel með almennu atriðin hér að ofan, þá ættuð þið að reyna að fylgja þeim eftir með nákvæmum, kerfisbundnum útfærslum. Ég ætla að kenna ykkur eina aðferð sem reyndist vel við sams konar mál.

Best er ef þið byrjið á að skrifa hjá ykkur hvað það er sem dóttir ykkar sækist mest eftir að fá og að gera. Það á hún síðan að geta ,,keypt sér” (umbun/verðlaun) fyrir merki (stjörnur, broskarla o.þ.h.) eða prik sem sem hún safnar sér inn fyrir það að sjúga ekki puttann. Þið gætuð t.d. haft blað á ísskápnum þar sem prikað er á eða merkin eru límd. Þið þurfið að útskýra fyrirkomulagið í fáum orðum fyrir henni, með glaðlegum og uppörvandi tón og tjáningu.

Athugið vel, prik og merki sem hún hefur unnið sér inn, eru aldrei tekin í burtu aftur.

Þú byrjar á þeim tímum dagsins þegar hún er best upplögð og tekur nokkrar lotur á dag. Lengd þeirra ræðst af aðstæðum hverju sinni. Hafðu loturnar ekki of langar og gættu þess að hún hafi næg viðfangssefni og að þið hættið áður en þið þreytist á þessu, þannig að hún hlakki til næstu lotu. Ekki lengja lotuna, þótt hún þrábiðji þig. Minntu hana þess í stað glaðlega á að stutt sé í næstu, og segðu henni hvenær hún hefjist.

Best er að nota stafræna ,,eggjaklukku”, þær fást í búsáhaldaverslunum. Í fyrstu lotunni stillir þú klukkuna á 1 mínútu. Þá hringir hún. Ef dóttir þín er ekki með fingurinn í munninum, þá fær hún strax merki eða prik á blaðið, ásamt brosi og hrósi. Haltu svona áfram í nokkur skipti í þessari lotu. Þú þarft að taka tímann frá í þetta án þess að vera að gera annað á meðan og fylgjast vel með hvað dóttir þín gerir þann tíma sem þið eruð í þessari vinnu. Ef það gengur í nokkur skipti með 1 mínútu, þá hækkar þú kröfurnar aðeins og lengir tímann örlítið, s.s. í 2 mínútur og gerir eins – hún fær strax prik eða merki þegar klukkan hringir svo fremi að hún sé ekki með fingurinn uppi í sér. Svona heldur þú áfram þar til lotunni er lokið og gætir þess að þær breytingar sem þú gerir á kröfunum/tímanum séu algjörlega háðar því að hún sé ekki með fingurinn í munninum þegar klukkan hringir. Ef 1 mínúta reynist of langur tími til að byrja á, þá þarftu að byrja með styttri tíma.

Á meðan þú ert að koma prógramminu (sem kallað er Fixed Interval) af stað, skaltu borga henni oft út, t.d. eftir hverja lotu, jafnvel jafnóðum í fyrstu lotunum, ef þetta reynist erfitt. Þegar kerfið er komið vel í gang hjá ykkur, þá skuluð þið ákveða hvað hún þarf að vinna sér inn mörg merki eða prik í hverri lotu til að fá útborgað. Ef hún nær ekki tölunni áður en lotunni lýkur, leyfðu henni þá að safna áfram í næstu. Ef of langt líður á milli útborganna, er mikil hætta á að þú ,,missir hana niður” og þá gæti orðið þrautinni þyngri að koma henni í gang aftur. Ef þú nærð henni í það að hafa ekki fingurinn upp í sér í hálftíma eða jafnvel klukkutíma í senn í nokkrar lotur í röð, þá getur þú hert kröfurnar enn frekar með því að 0-stilla milli lota. Þ.e. ef hún á að ná 15 merkjum í einni lotu en nær þeim ekki, þá þarf hún að byrja aftur að safna frá grunni í þeirri næstu. En þessar kröfur setur þú ekki fyrr en þú þykist viss um að henni takist að ná þeim. Umbunarkerfi eru samkvæmt orðanna hljóðan umbun, en ekki dómur eða refsing. Þess vegna er mjög miklvægt að skilmálarnir fylgi getu barnsins eftir og reynt sé að haga aðstæðum þannig að barnið ráði við skilyrðin hverju sinni. Þú æfist líka sjálf og verður færari eftir því sem á líður.

Þegar þetta er farið að ganga nokkuð ,,sjálfkrafa”, þarftu að huga að því að draga úr íhlutun þinni og bakka út. Það getur þú t.d. gert með því að breyta greiðsluskilmálunum þannig að bilin verði mislöng (Varible Interval).

Þá getur þú t.d. byrjað með mislöng tímabil allt frá 1 m&i
acute;nútu upp í 20 mínútur, sem að meðaltali gerir 10 mínútur. Settu tuttugu miða í skál og skrifaðu eitt tímabil á hvern miða. Þið haldið áfram með loturnar ykkar, dóttir þín dregur miða úr skálinni og klukkan er stillt samkvæmt því sem þar segir. Annað er óbreytt. Þegar hegðun hennar er orðin stöðug með þessum tímabilum, þá eykur þú kröfurnar aftur og bætir tveimur miðum í skálina með 21 og 22 mínútum, þannig að meðalgildið hækkar í 11 mínútur. Svona heldur þú áfram, bætir við lengri bilum, og svo getur þú líka fækkað lotunum. Ef vel gengur getur þú einnig tekið stærri stökk. En mundu að stuttu bilin koma alltaf óreglulega inn á milli.

Aðalatriðið er að bregðast strax við og hafa alla þessa stýri þætti mjög þétta svona framan af. Það sem gerist svo smám saman þegar lotunum fækkar og bilin lengjast, er að stýringin færist frá þér og til dóttur þinnar, og hún fær aukið vald yfir þeirri hegðun sem þú vilt sjá í fari hennar. Sem sagt aukna sjálfstjórn.

Gangi þér vel við atferlismótunina.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir.