Dropar til að gera hvítuna hvítari?

Spurning:
Af hverju eru ekki seldir dropar til að gera hvítuna í augunum hvítari á Íslandi? Og er skaðlegt að nota svoleiðis dropa í augun, samhliða linsum. Augun í mér verða alltaf svo rauð þegar ég nota linsur (samt er ég með einnota) og þess vegna langar mig að forvitnast aðeins um þetta.

Svar:
Þetta er frábær spurning og tímabær. Ég vil nota tækifærið og þakka apótekurum þessa lands fyrir að hafa lítið sem ekkert flutt inn af þessum dropum. Þessir dropar eru mikill þyrnir í augum augnlækna víða erlendis. Markaðsöflin vita sem er að það er mikið af fólki sem vill hafa augun hvít og falleg og því er mikil sala í þessum dropum úti og gríðarlegt úrval. Því miður eru þessir dropar miklir gallagripir. Þeir draga jú saman æðarnar í fyrstu skiptin, en ef þeir eru notaðir til langs tíma eykst þol æðanna við þeim og þær geta víkkað út – jafnvel meira en áður. Í lokin geta augun orðið blóðhlaupnari en nokkru sinni fyrr og engin lyf hefur áhrif á þau. Nokkrir leikarar í Hollywood hafa farið hált á notkun sinni á slíkum dropum, m.a. Elizabeth Taylor. Annað mjög mikilvægt atriði sem þú minnist á er roði þegar þú notar linsur. Það bendir til óþols fyrir linsunum og gæti það jafnframt bent til þess að þú ættir að minnka notkun á linsunum (þ.e. tímann sem þú ert með þær) eða skipta yfir í linsur með betra súrefnisflæði, s.s. silikonlinsur. Einnig gæti augnlaseraðgerð komið til greina ef þú ert komin með snertilinsuóþol.

Bestu kveðjur og gangi þér vel!
Jóhannes Kári Kristinsson.