Ég þarf að losna við 15 kíló?

Spurning:

Sæl og blessuð.

Ég er 29 ára á 3 börn. Ég þarf að losna við 15 kíló. Ég er búin að vera á 2 átaksnámskeiðum en tók hlé í 1 mánuð. Það var erfitt að fara af stað aftur en ég léttist um 3 kíló. Vöxturinn breyttist svolítið, en ég vil léttast meira. Hvað ráðleggur þú mér að gera? Ég vinn á næturvöktum aðra hvora viku og þá er ég rosalega þreytt og hef mig varla af stað í ræktina. Ég bý út á landi og verð því að gera þetta mest sjálf þar sem yfirleitt enginn leiðbeinandi er í salnum.

Með fyrirfram þökk

Svar:

Sæll.

Byrjaðu endilega aftur að hreyfa þig. Nú er sumarið að koma og um að gera að stunda fjölbreytta hreyfingu s.s. röskar gönguferðir, hjóla úti, ganga á fjöll, leika við börnin í snú snú, eltingaleik og fara í ræktina o.s.frv.

Þú færð aukna orku á að hreyfa þig reglulega. Farðu bara ekki of geyst af stað og taktu á eftir því sem þú treystir þér til. Matarvenjur þínar spila svo stórt hlutverk ef þú vilt losna við 15 kg. Borðaðu holla og fjölbreytta fæðu og gættu hófsemi. Forðastu sætmeti og feitmeti að mestu. Það tekur tíma að ná árangri og æskilegt er að léttast ekki hraðar en ca 2-3 kg á mánuði. Það er líka í fínu lagi því þá eru meiri líkur á að kílóin komi ekki strax aftur.

Gangi þér vel.

Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari