Ég er alltaf með tár í augunum

Spurning:

Sæll.

Mig langar að vita hvort eitthvað sé hægt að gera því að ég er alltaf með tár í augum, það er aðallega þegar ég er úti þá felli ég tár og sértaklega á hægra auga. Þetta gerist líka þegar ég er inni en ekki eins mikið.

Með von um jákvæð viðbrögð.

Svar:

Sæl.

Þetta þarf að athuga frekar með nákvæmri augnskoðun. Sennilegasta skýringin er augnþurrkur (já, augnþurrkur!). Erting í augum vegna þurrks ræsir stóru tárakirtlana fyrir ofan augun og þá verður táraflóð. Einkennin minnka ef fólk setur gervitár í augun, sem fást í apótekum án lyfseðils. Láttu augnlækni líta á þig og athuga málið.

Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.