Ég er með mjög mikinn munnþurrk, litlar bólur og sviða fremst á tungu.

Hætti að taka Lanser-magalyf, ef það skildi vera ástæðan. Var nýlega um hálfsárs skeið undir miklu andlegu álagi. Tek lýsi og vidamin. Gæti þetta verið sveppasýking, þó ég viti ekki ástæðuna fyrir því. Takk fyrir

Sæl (l) og takk fyrir fyrirspurnina.

Þetta gæti hugsanlega verið sveppasýking, svo til að útiloka það ráðlegg ég þér að fá álit læknis.

Jafnvægi bakteríuflóru í munni getur raskast af ýmsum orsökum. Til dæmis af völdum lyfja, sérstaklega sýklalyfja. Nú veit ég ekki hvort þú fannst einhvern mun eftir að þú hættir að taka lyfið Lanser, en algeng aukaverkun lyfsins er munnþurrkur. Þú nefnir að þú takir lýsi og vitamín sem er mjög gott því léleg næring gæti líka raskað jafnvægi í munni og skert ónæmiskerfið. Mikið andlegt álag sem þú nefnir gæti líka alveg haft áhrif á ónæmiskerfið þannig að jafnvægi bakteríuflórunnar fari úr skorðum.

En eins og ég nefndi þá er best að fá úr því skorið hjá lækni hvort um sveppasýkingu sé að ræða. Ef þetta er ekki sveppaýking,  þá gæti læknirinn ráðlagt þér hvernig þú getur meðhöndlað munnþurrkinn.

Gangi þér vel,

Svanbjörg Pálsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.