Ég er of fljótur að fá sáðlát?

Spurning:

Sæll.

Ég er 18 ára strákur og hef það vandamál að ég er of fljótur að fá sáðlát. Ég hef prófað allt! Ég kvíði því að stunda kynlíf í hvert sinn. Ég hef verið með stelpu í nokkra mánuði og mér finnst hún þolinmóð, en öllu má ofgera … Ég leita til ykkar því mig vantar ráð og þætti afar vænt um að fá svar og lausnir …

Svar:

Sæll.

Of brátt sáðlát er eitt algengasta kynlífsvandamál karla. Langflestir karlmenn lenda í því einhvern tíma að fá of brátt sáðlát og flestir oftar en einu sinni. Það verður hins vegar ekki vandamál nema maðurinn missi algerlega stjórn á sáðlátinu þannig að það sé undantekning frekar en hitt að það verði ekki of brátt. Einnig er mjög misjafnt hversu brátt það er. Það er margt sem getur orsakað það og oftast er um samverkandi þætti að ræða. Þegar of brátt sáðlát kemur fyrir mörgum sinnum í röð missir karlmaðurinn trú á sjálfum sér sem kynveru, verður stressaður og kvíðinn og tapar sjálfstrausti gagnvart rekkjunaut sínum og er þar með orðinn fastur í vítahring, sem mjög erfitt er að komast út úr án aðstoðar fagmanns.

Algengt er að skortur á sjálfstrausti frá upphafi orsaki þetta, einnig of mikil meðvirkni og undirgefni gagnvart konum í kynlífi, alltof mikil löngun til að standa sig í kynlífi, löngun sem jaðrar við undirgefni og þar með skortur á því að kynlíf sé í raun stundað fyrir sjálfan sig.

Þú segist hafa prófað allt!!!, hvað sem það nú þýðir. Þú segir líka að þú sért farinn að kvíða kynlífi þegar það liggur í loftinu. Þetta bendir til þess að þið munið ekki geta lagað þetta án utanaðkomandi aðstoðar sérfræðings í kynlífsmeðferð. Þú segist vera í föstu sambandi, þó það sé ekki nema nokkurra mánaða og að kærasta þín sé þolinmóð. Það ætti að geta hjálpað til við meðferðina.

Ég hef skrifað allmikið um of brátt sáðlát, bæði hér á Doktor.is og einnig víða annars staðar. Ég ráðlegg ykkur að lesa kaflann um kynlíf í Sálfræðibókinni og leita ykkur síðan aðstoðar hjá fagaðila. Yfirleitt gengur nokkuð vel að fást við þetta, en forsendan er þó að bæði séu ákveðin í því að takast á við þetta og laga það, bæði gefi sér þann tíma sem til þess þarf og að bæði séu tilbúin til þess að takast á við þær viðhorfsbreytingar til kynlífs, sem nauðsynlegar eru. Meginforsendan er þó sú að sambandið sé gott, átakalítið, gefandi og sterkt.

Eins og þú sérð tel ég því miður litlar líkur á því að þið getið tekist á við þetta án aðstoðar, en æfið ykkur eins og þið getið í því að slaka á gagnvart kynlífinu, gera það að leik sem á að njóta í stað þess að vera eitthvert verkefni sem þarf að standa sig í og þá komist þið ef til vill eitthvað áleiðis. Annars skuluð þið leita ykkur aðstoðar.

Kær kveðja,

Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur