Ég er ófrísk og hef engan áhuga á kynlífi

Spurning:

Heill og Sæll.

Ég er komin 23 vikur á leið (á annað sem verður 2 ára á næstu dögum). Ég hef nákvæmlega ENGAN áhuga á kynlífi, hvað veldur því? Mér finnst það svo leiðinlegt, því maðurinn minn heldur að ég sé orðin „kynköld". Ég hafði heyrt að maður væri oft „virkari" á annari meðgöngu en það er þveröfugt.

Svar:

Komdu sæl.

Áhrif meðgöngu á kynlífslöngun kvenna er mjög misjöfn og einstaklingsbundin. Ekki er hægt að fullyrða neitt um að konur séu virkari kynferðislega á annarri meðgöngu en hinni fyrstu. Oft heyrist líka að meðgöngu sé hægt að skipta í þrjá hluta hvað þetta varðar, þ.e. fyrstu 3 mánuði, þar sem kynferðislegur áhugi konunnar dvínar mjög, næstu þrjá mánuði, þar sem áhugi hennar stóreykst og svo seinustu þrjá mánuðina, þar sem áhugi hennar dvínar aftur. Það er rétt að oft á þetta sér stað, en það er langt í frá að þetta gildi alltaf. Þá fer kynferðislegur áhugi konu á meðan á meðgöngu stendur mjög eftir því hversu frísk hún er á meðgöngunni. Ef meðgöngu fylgir mikil ógleði eða grindarlos eða aðrir líkamlegir kvillar, hefur það að sjálfsögðu áhrif á kynlífslöngun hennar eins og veikindi almennt gera í daglega lífinu. Ýmislegt annað getur komið til, sem áhrif hefur á kynlífslöngun konunnar.

Nú veit ég ekki alveg í hvaða merkingu þú notar hugtakið kynlíf þegar þú segist ekki haf neinn áhuga á því. Mig grunar þó að þú sért að tala um lítinn eða engan áhuga á samförum. Kynlíf er þó, eða á að vera, miklu meira en samfarir. Ef kynlíf ykkar hefur t.d. einkennst af mjög stuttum forleik, með megináherslu á samfarir, getur það orsakað lítinn áhuga hjá þér nú, ef þessi litli áhugi þinn beinist fyrst og fremst að samförunum. Ég sé einnig af því sem þú skrifar að þér finnst þetta leiðinlegt, svo ég mæli með því að þú ræðir það við manninn þinn að prófa kynlíf án samfara í einhver skipti til þess að þú getir slakað á gagnvart áherslu á samfarirnar sem slíkar. Þið getið lesið ykkur til í næstum öllum bókum og tímaritum sem fjalla um kynlíf, hvernig kynlíf án samfara getur verið mjög gefandi og fullnægjandi, bara ef slakað er á áherslunni á samfarir. Slíkt kynlíf gefur líka heilmikið nýtt inn í kynlíf ykkar og getur orðið til þess að auka áhuga þinn á kynlífi aftur. Þá er mjög algengt að kynlíf án samfara sé meginuppstaðan í kynlífi fólks, þar sem konan er komin nálægt fæðingu.

Með von um að þið lagið þetta í góðri sameiningu og samvinnu,

Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur