Ég er svo dapur, hvað er til ráða?

Spurning:

Um daginn fór ég til læknis vegna þess að mér er búið að líða alveg svakalega illa síðan það slitnaði uppúr 2 ára ástarsambandi. Mig grunaði að ég væri þunglyndur. Læknirinn sagði að ég væri sennilega ekki þunglyndur heldur bara eðlilega dapur eftir sambandsslitin. Þá voru liðnir 4 mánuðir. Nú eru liðnir átta mánuðir og ennþá líður mér svakalega illa ef ekki verr. Ég nenni ekki að fara aftur til læknis ef hann ætlar bara að senda mig heim og með „harkaðu þetta af þér strákur” í veganesti. Á ég bara að harka þetta af mér eða á ég að fara til enhvers annars læknis? Samkvæmt því sem ég hef lesið hér á Doktor.is þá er ég skólabókardæmi þunglyndissjúklings eftir því sem ég best veit.

Kveðja.

Svar:

Tíminn er orðinn það langur að ástæða er eins og þig sjálfan rennir í grun, að ekki sé allt með felldu og að þú leitir þér sérfræðiaðstoðar til staðfestu á því hvað er við að etja og mjög brýnt að gera það sem allra fyrst. Talað er um að tíminn lækni öll sár, en ósýnilegu sárin geta verið mörg hver erfiðari en önnur og oft og einatt þarf tíminn aðstoðar við. Hér erum við að tala um í fyrstu atrennu að þú setjir þig í samband við sálfræðing, sem metur það síðan hvort nauðsynlegt sé að þú leitir eftir aðstoð geðlæknis til að taka frekar á málinu. Við hvetjum þig til að draga það ekki að leita sérfræðiaðstoðar því í tilvikum sem þínum miðað við gefna lýsingu eru miklar líkur á að hægt sé að taka á vandanum áður en hann verður varanlegur. Varðandi frekari upplýsingar og leiðbeiningar hvert hægt er að leita aðstoðar er sjálfsagður hlutur að þú hafir samband við undirritaðan með tölvupósti eða símleiðis.

Með kærri kveðju,
Sveinn Magnússon, framkv.stj. Geðhjálp