Spurning:
Ég get ekki stjórnað þunglyndi mínu, eða tilfinningum. Ef eitthvað pínulítið neikvætt gerist þá dett ég niður. Þó svo að það hafi verið eitthvað lítið! Mér finnst alltaf vera eitthvað að mér. Ég hef verið með fælni, bæði fyrir geitungum og uppköstum og ég var sett á lyf sem heitir seroxat. Fælninni fylgir þunglyndi. Lyfin hefðu átt að vinna á henni líka en ég er samt alltaf viðkvæm fyrir öllu.. og ég get bara ekki átt vini vegna þess að ég held alltaf að þeim líki ekki við mig. Þó svo að þau hafi sagt mér að þeim líki við mig þá held ég fimm mínútum seinna að þeim líkið ekki við mig.. hvað get ég gert?
Svar:
Ég mæli með að þú leitir þér aðstoðar sálfræðings sem notar hugræna atferlismeðferð. Hugræn atferlismeðferð (HAM) er skammtíma samtalsmeðferð sem hefur sýnt góðan árangur við fælni og þunglyndi. Samkv. HAM stjórna hugsanir eða viðhorf okkar því hvernig við túlkum aðstæður. Til dæmis ef maður hugsar að öllum líki illa við mann þá túlkar maður samskipti á neikvæðan hátt. Þegar maður er síðan neikvæður í samskiptum þá ganga þessi samskipti illa. Það styður síðan hugsanirnar um að öllum líki illa við mann. Sama dæmi má hugsa með öfugum formerkjum þannig að ef maður telur að öllum (eða flestum) líki vel við mann þá verður viðmót manns betra í samskiptum. Fólk er því vinsamlegt við mann á móti og það styrkir hugsanirnar um að fólki líki vel við mann. Markmið í meðferð er m.a. að hjálpa manneskunni að þekkja þessar hugsanir og skilja hvernig þær tengjast ákveðnum aðstæðum. Síðan er reynt að breyta þessum túlkunum eða finna aðrar túlkanir á aðstæðunum.
Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
S:661-9068