Ég greindist með blóðtappa á 24. viku

Spurning:

Sæl.

Ég er komin 30 vikur á leið og greindist með blóðtappa á 24. viku. Ég hef tekið Fragmin síðan og allt gengur vel. Læknirinn minn sagði mér í gær að það þyrfti að setja mig af stað á 38. – 39. viku – áður en eðlileg fæðing hefst. Þeir vilja setja mig á Heparin (í æð) sem endist í skemur en Fragmin, svo mér blæði hreinlega ekki út í fæðingu. Eru líkur á því að ég endi í keisaraskurði? Verður barnið búið að skorða sig og tilbúið til fæðingar á þessum tíma?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Þegar gripið er inn í meðgöngu og kona gangsett áður en fullri meðgöngu er náð er alltaf aðeins aukin hætta á að fæðingin gangi ekki eins vel og ef hún fer eðlilega af stað. Þar með eykst eitthvað hættan á keisaraskurði en það er ekkert sjálfgefið og um að gera að vera bara bjartsýn á að þetta fari allt vel.

Yfirleitt eru börnin búin að skorða sig um 36-38 vikna meðgöngu og barnið ætti að vera búið að ná nægum þroska til að fæðast við 38-39 viku og örvast að auki í fæðingunni. Svo þú skalt bara halda þínu striki og vera ekkert að kvíða þessu óþarflega – þetta fer sjálfsagt vel og þú ert greinilega í góðu eftirliti hjá þínum lækni. Svo getur þú líka rætt þetta við þína ljósmóður í mæðraverndinni.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir